Þorsteinn Már sagði að Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju og Kristján Þór Júlíusson alþingismaður væru þeir einu sem fylgdust með því hvað Samherji væri að gera. "Núverandi bæjarstjóri á Akureyri hefur aldrei spurst fyrir um fyrirtækið, hvað við erum að gera, eða hvaða áhrif ýmsar aðgerðir stjórnvalda hefðu á rekstur fyrirtækisins."
Þorsteinn Már sagðist ekki vilja trúa því að kosningarnar á Akureyri muni snúast um skipulagsmál. "Ef svo er, verð ég að taka undir með Friðriki V (Friðriki V. Karlssyni) sem sagði andvaraleysi bæjarstjórnarmanna og okkar Akureyringa algjört. Áður en þið vitað af gæti bæði fiskvinnsla og kjötvinnsla verið horfin. Ég vil ekki trúa því að þetta gerist," sagði Þorsteinn Már.
Hann sagði að sjávarútvegur við Eyjafjörð væri þýðingarmikil grein og hefði einnig mikil áhrif á aðrar starfsgreinar. Ef Akureyringar og Eyfirðingar ætluðu að búa við það ástand sem ríkir í dag, þurfi menn að leggja enn harðar að sér. "Það er eina leiðin ef okkur á ekki að fara verulega aftur. Með aðgerðarleysi er búið að fjarlægja allt of miklar aflaheimildir úr firðinum. Og þessi umræða um okkur sem í þessari grein störfum, er algjörlega óþolandi. Það er aldrei litið á það að við séum að skapa eitthvað, heldur séum fyrst og fremst þiggjendur." Hjá Samherja á Íslandi starfa um 600 manns og 70% þeirra eru búsettir á Eyjafjarðarsvæðinu. Fyrirtækið greiddi 5.000 milljónir króna í fyrra til starfsmanna og fyrirtækja í Eyjafirði.