Forseti Íslands heiðursgestur á Atvinnu- og nýsköpunarhelginni

Nú um helgina stendur yfir Atvinnu- og nýsköpunarhelgin í Háskólanum á Akureyri. Helgin er hugsuð til þess að hvetja fólk til athafna og vinna að nýjum og núverandi viðskiptahugmyndum. Verkefnið hófst sem samstarfsverkefnis sjálfstæðra atvinnurekenda á Akureyri. Menn tóku sig saman og ákváðu að mikilvægt væri að blása líf í atvinnulífið í bænum og öllu Íslandi með kraftmikilli helgi.  

Sérstakur heiðursgestur um helgina verður Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, en hann opnar hátíðina með erindi sínu klukkan 18:00 í dag föstudag. Innovit, nýsköpunar og frumkvöðlasetur, tók að sér að stýra verkefninu yfir helgina. Þeir þátttakendur sem hafa viðskiptahugmynd, kynna viðskiptahugmyndina fyrir öðrum þátttakendum. Í kjölfarið verður öllum þátttakendum skipt niður í teymi sem vinna þrotlaust að þróun viðskiptahugmyndarinnar frá föstudagskvöldi til sunnudagskvölds. Þær hugmyndir sem eru áhugaverðastar eða koma mestu í verk yfir helgina eiga síðan kost á því að fá vegleg verðlaun sem veitt verða eftir kynningu fyrir dómnefnd á sunnudeginum.

Fjölmargir sérfræðingar, auk starfsfólks Innovit, verða á staðnum og leiðbeina og vinna með fólki að þróun viðskiptahugmynda. Þar má sem dæmi nefna Guðjón Már Guðjónsson, framkvæmdastjóra Medizza og Agnar Sigmarsson einn stofnenda Transmit. Einnig verða fjölmargir sérfræðingar frá Háskólanum á Akureyri, Atvinnuþróunarfélagi Akureyrar, Stefnu hugbúnaðarhúsi og fjölmörgum öðrum stofnunum og fyrirtækjum sem hafa sýnt verkefninu áhuga og stuðning.

Nýjast