Formaður Þórs gekk út

Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri á Akureyri skrifaði nú í hádeginu undir nýja rekstrarsamninga við forsvarsmenn íþróttafélaganna KA og Þórs. Þegar kom að undirritun gekk Sigfús Ólafur Helgason, formaður og framkvæmdastjóri Þórs, úr bæjarstjórnarsalnum og kallaði til varaformann félagsins, Árna Óðinsson, til að undirrita samninginn fyrir hönd félagins. Ástæðan fyrir útgöngu Sigfúsar var að Dan Brynjarsson fjármálastjóri bæjarins var í salnum. Sigfús Ólafur sagðist alls ekki ósáttur við rekstrarsamninginn og þakkaði bæjaryfirvöldum fyrir hann. Hins vegar hefði hann lent í miklu karpi við Dan Brynjarsson þegar kom að því að greiða út aukafjárveitingu til félagsins sl. haust. Dan hefði þá látið stór orð falla um Íþróttafélagið Þór sem Sigfús var ekki sáttur við. „Ég bíð eftir afsökunarbeiðni frá Dan og mun ekki eiga við hann samskipti fyrr en afsökunarbeiðni frá honum hefur borist. Honum stendur til boða að koma í heimsókn til mín og biðjast afsökunar," sagði Sigfús Ólafur. Sjálfur vildi Dan ekki tjá sig um þetta mál.

Nýjast