Formaður KA sendir bæjaryfirvöldum tóninn: „Samkeppnisstaða Akureyrar og KA að minnka verulega"

Ingvar Már Gíslason. Mynd/Þórir Tryggvason.
Ingvar Már Gíslason. Mynd/Þórir Tryggvason.

Ingvar Már Gíslason, formaður KA, segir bæjaryfirvöld á Akureyri vera áhugalaus um uppbyggingu á svæði félagsins og segir skorta pólitískt þor til uppbyggingar íþróttamannvirkja í bænum. Þetta segir Ingvar í ávarpi sem hann flutti á 92 ára afmæli KA á dögunum.

Hann segir aðstöðu KA vera barn síns tíma. „Kæru KA menn, ykkar framlag til félagsins er ómetanlegt og verður seint talið til fjár. Á meðan við stöndum vaktina fyrir börnin okkar og iðkendur okkar leggja líf og sál í æfingar stöndum við sem erum í forsvari fyrir félagið í baráttu sem virðist ætla að verða eilíf. Við höfum nú um langa hríð reynt af fremsta megni að eiga samtal við bæjaryfirvöld um uppbyggingu á félagssvæði okkar. Aðstaða okkar hér er barn síns tíma og hefur á engan hátt þróast með félaginu síðustu ár. Þetta er sorgleg staðreynd sem blasir við okkur og því miður er það svo að ég hefi orðið miklar áhyggjur af því áhugaleysi sem virðist ríkja meðal bæjaryfirvalda um uppbyggingu á KA svæðinu. Sú þögn sem ríkir um hvernig standa skuli að uppbyggingu á þeirri eðlilegu íþróttaaðstöðu sem við teljum okkur þurfa er orðin ærandi.“

„Íþróttabærinn Akureyri má muna fífil sinn fegurri“

Í skýrsla um uppbyggingu íþróttamannvirkja Akureyrarbæjar er KA framarlega á blaði en Ingvar telur þó lítið tilefni til fagnaðar. „Nú tveimur mánuðum eftir að skýrslan var kynnt fyrir íþróttahreyfingunni hefur enginn stjórnmálamaður séð ástæðu til að tjá sig opinberlega um innihald hennar né hvað þá haft samband við félagið til að ræða hvernig standa megi að málum, já þögnin er ærandi. Íþróttabærinn Akureyri má í mínum huga muna fífil sinn fegurri og ég óttast mjög að Akureyri sé að tapa samkeppnishæfni sinni. Ekki bara þegar kemur að æfinga og keppnisaðstöðu fyrir íþróttafólk heldur ekki síður þegar kemur að vali fólks á búsetu. Góð íþróttaaðstaða og félagslegt starf er ein af lykilbreytunum þegar við veljum hvar við ætlum að búa,“ segir Ingvar.

Þá bendir hann á það líði varla mánuður á milli þess að maður lesi um myndarlega uppbyggingu hjá bæjarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. „Á Selfossi stendur til að fjárfesta fyrir 5,1 milljarð á næstu árum. Í Garðabæ fyrir 4,2 milljarða og í Mosfellsbæ fyrir 2 milljarða. Hafnfirðingar ætla að halda áfram sinni gríðarlegu uppbyggingu og munu setja 2,5 milljarð í fjárfestingar næstu árin. Reykjavíkurborg hefur staðið myndarlega að uppbyggingu hjá íþróttafélögum síðustu ár og ætlar að halda áfram, setur 7,6 milljarða í uppbyggingu á íþróttasvæði ÍR og Fram.  Til samanburðar má reikna með 600 milljónum í fjárfestingar í íþróttamannvirkjum á Akureyri á næstu tveimur árum.“

„Það skortir pólitískt þor“

Ingvar telur jafnframt að á Akureyri hafi einfaldlega verið fjárfest of lítið í uppbyggingu íþróttamannvirkja undanfarin ár og nú sé kaldur veruleikinn að koma í ljós.

„Af þessum sökum er samkeppnisstaða Akureyrar og KA að minnka verulega. Einhverjir kunna að spyrja hvert er vandamálið. Hvers vegna er ekki löngu búið að taka ákvörðun um uppbyggingu á KA svæðinu, gera fullmótaða og tímasetta verkáætlun. Mitt svar er tiltölulega einfalt. Það skortir pólitískt þor og vilja þeirra sem ráða för og hafa ráðið mörg undanfarin ár. Því miður eru engar ákvarðanir teknar þegar kemur að stóru málunum, forgangsröðunin er óskýr og tilviljunakennd og fókusinn er frekar á skammtímalausnir í stað þess að fylgja fullmótaðri stefnu til að mynda Íþróttastefnu Akureyrarbæjar.“

Félagið „svelt og nánast hunsað“

Ingvar segir staðreyndirnar og tölurnar tala sínu máli. „Meðan KA hefur stækkað, tekið á sig meiri ábyrgð, fleiri iðkendur og glætt bæjarlífið miklum ljóma með fjöldanum öllum af íþróttaviðburðum hafa fjárfestingar á félagssvæði okkar síðastliðin 20 ár numið 417 milljónum og inní þeirri tölu eru kaup Akureyrarbæjar á Íþróttahúsinu við Lundarskóla uppá 95 milljónir árið 2001. Húsi sem KA menn byggðu sjálfir. Það er ekk nema von að okkur sé brugðið þegar fyrir liggur að stærsta íþróttafélag bæjarins og eitt það stærsta í landinu hefur verið svelt í uppbyggingu og nánast hunsað svo árum skiptir. Þetta er í mínum huga ósanngjarnt gagnvart KA mönnum, ósanngjarnt gagnvart því metnaðarfulla starfi sem hér er unnið og ósanngjarnt gagnvart afreksíþróttafólki okkar sem leggur á sig gríðarlega vinnu til að ná góðum árangri. Skilaboðin eru mjög skýr, úr aðstöðu okkar þarf að bæta og vinnan þarf að hefjast í dag,“ segir Ingvar Már Gíslason.

Lesa má pistilinn í heild sinni hér.


Athugasemdir

Nýjast