Foreldrar kjósa ekki lengur um leikskólalokanir

Mynd/Þröstur Ernir
Mynd/Þröstur Ernir

Akureyrarbær hefur tekið þá ákvörðun að breyta háttalagi á sumarlokun leikskóla. Foreldrar fá ekki lengur að kjósa um hvenær leikskólar loki eins og verið hefur undanfarin ár, heldur verður leikskólalokunum skipt niður í þrjú tímabil næstu þrjú árin. Skoðanakönnun verður síðan gerð á meðal foreldra haustið 2015 til að meta viðhorf til sumarlokunar.

Í bókun Skólanefndar Akureyrar segir að nefndin áskilji sér rétt í samráði við leikskólastjóra til að endurskoða sumarlokanir með tilliti til niðurstöðu könnunarinnar annars vegar og fjárhagsáætlunar hins vegar.

Eins og Vikudagur fjallaði um síðastliðið sumar voru leikskólalokanir talsvert gagnrýndar þar sem níu leikskólar af ellefu voru lokaðir á sama tíma síðasta sumar. Þótti fyrirkomulagið hamla atvinnulífi á mörgum vinnustöðum.

-þev

Nýjast