Eftir að hafa skoðað niðurstöður foreldrakönnunar þá kemur í ljós að nánast jafnt er í hópunum sem vilja hefja skóladaginn síðar og þeirra sem ekki vilja breytingar. Það lítur því þannig út að ekki verði farið í þessar breytingar að svo stöddu, segir Elías Gunnar Þorbjörnsson skólastjóri í Lundarskóla á Akureyri. Eins og Vikudagur sagði frá fyrir skömmu hafa stjórnendur skólans velt þeim möguleika fyrir sér næsta skólaár að nemendur í 9. og 10. bekk myndi hefja skólastarf kl. 9:00 í staðinn fyrir kl. 8:15.
Í bréfi sem skólinn sendi foreldrum nemenda í áttunda og níunda bekk segir að niðurstöður rannsókna bendi til margra kosta þess að unglingar fái að vakna seinna og ýmislegt gefi til kynna að það hafi jákvæð áhrif á heilsu þeirra eða námsárangur. Ákveðið var að kanna möguleikann en afstaðan var ekki nægilega afgerandi að sögn Elíasar.
-þev