Fordæmi fyrir samvinnu allra flokka í bæjarstjórn Akureyrar

Líkt og árið 1946 mynda nú allir flokkar bæjarstjórn Akureyrar.
Líkt og árið 1946 mynda nú allir flokkar bæjarstjórn Akureyrar.

Allir flokkar koma nú að bæjarstjórn Akureyrar eftir ákveðið var að fella niður minni-og meirihlutann til þess að sameinast um að rétta við rekstur Akureyrarbæjar sem er afar þungur. Í umræðunni í síðustu viku var sagt að stjórn allra flokka hefði ekki áður komist á hér í bæjarfélaginu.

Það mun ekki vera rétt því í 5. bindi Sögu Akureyrar eftir Jón Hjaltason sagnfræðing má lesa um stórmerkilega samvinnu allra flokka hér á Akureyri árið 1946. Þá var enginn minnihluti en undir stjórn Steingríms Aðalsteinssonar sem leiddi Sósíalistaflokinn var mynduð „þjóðstjórn“ í bænum líkt og nú er að gerast.

Flestir reiknuðu með bandalagi sósíalista, jafnaðar- og samvinnumanna en Steingrímur vildi ganga skrefinu lengra og mynda bandalag allra flokkanna fjögurra sem höfðu boðið fram, þar á meðal Sjálfstæðisflokkinn og var samstarfssamningur allra flokkanna fjögurra undirritaður.

Þrengingar þjöppuðu báðum „þjóðstjórnunum“ saman

Jón Hjaltason segir við fyrirspurn Vikublaðsins að það sem sé líkt með ástandinu nú og árinu 1946 sé að þrengingar þjöppuðu þeim saman. „En ég geri ráð fyrir að sameining flokkanna 1946 hafi verið mun óvæntari en þessi sem nú er orðin. Í baksýnisspeglinum þá höfðu menn kreppu og heimsstríð, mikla flokkadrætti og gríðarleg átök. Sem sagt, engin lognmolla eins og sumir segja að einkenni akureyrsk stjórnmál 21. aldar,“ segir Jón.


Nýjast