Töluverður fjöldi fólks er kominn til Akureyrar í tengslum við Bíladagshátíðina sem fram fer um helgina. Búist er við að umferð þyngist þegar líða tekur á daginn. Það var eitthvað komið af tjöldum í gærkvöld en allt með kyrrum kjörum. Við eigum von á talsverðri umferð seinni partinn í dag og í kvöld, segir varðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri í samtali við Vikudag.
Viðbúnaður hjá lögreglunni um helgina er hefðbundinn miðað við undanfarin ár tengt Bíladögum, bæði hvað varðar umferðina og skemmtanalífið.
Daníel Guðjónsson, yfirlögregluþjónn á Akureyri, segir í viðtali í Vikudegi að Bíladagshátíðin hafi farið batnandi undanfarin ár en hátíðinni hefur jafnan fylgt talsverð læti. Við búumst við ónæði á götum bæjarins um helgina. Það hefur því miður ekki alveg horfið að menn séu að spóla á götum og bílaplönum, segir Daníel.