„Fólk mun færa sig yfir í sínar skotgrafir þegar nær líður að kosningum“

Samsett mynd. Innfelld mynd: Grétar Þór Eyþórsson prófessor. Mynd/Auðunn Níelsson
Samsett mynd. Innfelld mynd: Grétar Þór Eyþórsson prófessor. Mynd/Auðunn Níelsson

Upphitun fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 14. maí


 

Sveitatjórnarkosningar fara fram í 14. maí nk. og á bak við tjöldin eru flokkarnir eflaust farnir að undirbúa uppstillingar framboðslista. Nú þegar hefur sprengjum verið varpað í Norðurþingi sem eflaust munu hafa áhrif á komandi kosningabaráttu. Stjórnir tveggja flokka hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem verkstjórn sveitarstjóra er sögð ábótavant og áhyggjum lýst um stöðu sveitarfélagsins. Þá hefur sveitarstjóri, Kristján Þór Magnússon tilkynnt að hann munin hvorki sækjast eftir áframhaldandi setu í sveitarstjórn Norðurþings né starfi sveitarstjóra að loknum kosningum.

Annars vegar er hér um að ræða yfirlýsingu frá stjórn E-listans sem á einn fulltrúa í minnihluta sveitarstjórnar. Hins vegar og það sem kannski meira á óvart er að hin yfirlýsingin kemur frá Stjórn V-lista Vinstri grænna og óháðra. V-listi er samstarfsflokkur D-lista í meirihluta sveitarstjórnar Norðurþings  og stóð einmitt fyrir því að Kristján Þór Magnússon var ráðinn í starf sveitarstjóra á sínum tíma en hann er einnig oddviti sjálfstæðisflokks á yfirstandandi kjörtímabili.

Annað sem athygli vekur varðandi þessar vantraustsyfirlýsingar, sem þær verða að túlkast sem; er að sveitarstjórnarfulltrúar beggja þessara flokka hafa í viðtölum við Vikublaðið báðar lagt ofuráherslu á það að bókanirnar komi frá stjórnum flokkanna, baklandinu en ekki kjörnum fulltrúum.

 Erfitt að fá fólk?

Ljóst er að miklar mannabreytingar verða í sveitarstjórnum bæði í Norðurþingi og ekki síður á Akureyri eftir kosningarnar í vor. Margir frambjóðendur hafa tilkynnt að þeir gefi ekki kost á sér í komandi kosningum. Eins hafa orðið miklar hreyfingar á fulltrúum í Norðurþingi á kjörtímabilinu. Til marks um það var forseti sveitarstjórnar í 9. sæti á lista V-lista fyrir síðustu kosningar. V-listi á einn fulltrúa í sveitarstjórn. Það er Aldey Unnar Traustadóttir en hún hefur engu að síður komið sterk inn í sveitarstjórn og ekki óvarlegt að ætla að Vinstri grænir beri miklar vonir til  hennar í komandi kosningum.

Grétar Þór Eyþórsson, doktor í stjórnmála- og stjórnsýslufræðum og prófessor við Háskólann á Akureyri segir í samtali við Vikublaðið að erfitt sé að fullyrða um það hvort það sé að aukast að erfitt sé að fólk til starfa í sveitarstjórnum.

„Það er alveg ljóst að þetta eru að verða meiri og meiri verkefni sem fólk er að takast á við þegar það fer inn í sveitastjórnir. Það getur haft áhrif. Í flestum sveitarfélögum er fólk að reyna samræma sveitarstjórnarstörfin á móti öðru starfi eða hlutastarfi. Það verður kannski bara þreytt á því til lengdar. Það kannski vinnur að því að það situr ekki of lengi í þessu,“ útskýrir Grétar.

Óvægin umræða

Þá útilokar Grétar ekki að óvægin umræða á samfélagsmiðlum hafi áhrif á áhuga fólks til að taka að sér störf innan sveitarstjórna. „Hún er ekki ritskoðuð á neinn hátt og það er eflaust ein af ástæðunum fyrir því að fólk vill ekki lenda í svoleiðis orrahríð og frábiður sig frá því. Enda er fjölskylda, börn og aðrir að lesa þetta. Það er alveg satt að það er ekkert lokkandi, það er öllu ausið yfir fólk úr öllum áttum,“ segir Grétar og bætir við að slík umræða hafi aukist mikið.  „Við getum farið svona 2-3 kjörtímabil aftur í tímann, þá fer þetta að verða mjög áberandi.“

 Leiðinleg kosningabarátta á Akureyri

Á Akureyri tóku allir flokkar sig saman á miðju kjörtímabili og mynduðu svo kallaða „Þjóðstjórn“ þar sem allir fulltrúar vinna saman án hefðbundins meiri- eða minnihluta. Þetta var gert til að bregðast við erfiðum rekstri bæjarins. Spurður telur Grétar að þetta fyrirkomulag muni ekki hafa teljandi áhrif á hvernig flokkarnir mæti til leiks í kosningabaráttuna.

„Nei, ég held ekki. Fólk mun færa sig yfir í sínar skotgrafir þegar nær líður að kosningum, þannig lagað. Þegar komið er í kosningabaráttu þá vill fólk undirstrika sínar áherslur. Síðan verða menn að vinna úr þeim möguleikum sem eru í boði eftir næstu kosningar varðandi samstarf. Ég á ekki von á því að þau sigli hönd í hönd inn í kosningabaráttuna. Held að það hafi aldrei staðið til,“ útskýrir Grétar og bætir við að hann eigi ekki sérstaklega von á að samstarf allra flokka muni halda áfram á næsta kjörtímabili.

„Það er ég alls ekki viss um, alla vega ekki til að byrja með.  þá verða komnar inn talsverðar mannabreytingar sem hefur sjálfsagt áhrif á líka.“

Grétar virðist þó ekki eiga von á mjög spennandi kosningabaráttu, a.m.k. ekki á Akureyri.

„Hér á Akureyri hefur oft verið talað um það að kosningabaráttan væri jafnvel leiðinleg og frekar tíðindalítil, ekki mikið um slagsmál. Það er ekkert sem bendir til þess að það verði gjörbreyting á því,“ segir hann og bætir við að það stefni kannski í meiri slag í Norðurþingi.

Að öðru leiti virðist ekki stefna í neinn stórslag hér á Norðausturlandi. Hvort sem horft er til  Siglufjarðar eða Fjallabyggðar og Dalvíkur. Og svo eru það sameiningarmálin sem eru efst á baugi í Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit og verða sjálfsagt að rædd fyrst og fremst fyrir kosningar. Fólk er auðvitað ekki sammála um allt varðandi þau mál en það virðist vera vilji fyrir sameiningu þannig að það er ekki von á miklum látum,“ segir Grétar Þór að lokum.


Nýjast