Fólk ekki lengur feimið vegna eigin fjármála

Gestur Breiðfjörð Gestsson
Gestur Breiðfjörð Gestsson

„Akureyringar og íbúar Eyjafjarðarsvæðisins hafa tekið okkur mjög vel. Við höfum verið með skrifstofu á Akureyri í um þrjú ár og viðtökurnar hafa verið vonum framar,“ segir Gestur Breiðfjörð Gestsson framkvæmdastjóri ráðgjafafyrirtækisins Sparnaðar. Eitt af markmiðum fyrirtækisins er að hjálpa fólki að ná árangri í fjármálum, til dæmis með því að greiða niður skuldir og auka eignamyndun.

„Fjárhagslegar aðstæður viðskiptavina okkar eru eðlilega mjög mismunandi og þar með þarfir. Eftir bankahrun eru skuldir margra mjög miklar og þá er mikilvægt fyrir viðkomandi að ná tökum á sínum málum. Í flestum tilvikum er hagstæðast að greiða inn á höfuðstól lánanna og draga þannig úr vaxtakostnaði. Forsendurnar geta hins vegar verið mjög misjafnar, þannig að það þarf að ígrunda vel hverja uppgreiðsluáætlun, þekking okkar á því sviði er að mínu mati góð.“

Fjármálin eiga ekki að vera feimnismál

„Þetta hefur tekið breytingum eftir bankahrun, fólk í dag er opnara þegar kemur að fjárhagsstöðunni. Fyrir hrun var þetta feimnismál hjá flestum. Við leitumst við að finna hagstæðustu leiðirnar fyrir fólk og teljum okkur hafa náð góðum árangri. Starfsemin hérna á Akureyri sýnir til dæmis að okkar leiðir höfða til fólks og fyrir það erum við þakklát,“ segir Gestur Breiðfjörð Gestsson framkvæmdastjóri Sparnaðar.

karleskil@vikudagur.is

 

Nýjast