Fokker flugvélarnar senn úr sögunni
Flugfélag Íslands hefur ákveðið að taka Bombardier Q400 vélar í rekstur í stað Fokker 50 flugvéla sem verið hafa í rekstri félagsins allt frá árinu 1992. Q400 vélarnar eru stærri en Fokker 50 og gerir Flugfélag Íslands ráð fyrir að taka þrjár vélar í 74 sæta útgáfu í sinn rekstur í stað þeirra fimm Fokker 50 véla sem félagið hefur í dag en í þeim eru 50 sæti.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Flugfélagi Íslands. Auk þess að vera stærri eru Q400 um 30% hraðfleygari en venjulegar skrúfuþotur og bíður því rekstur þessarar tegundar uppá nýja möguleika fyrir félagið.
Q400 vélarnar munu verða notaðar á hefðbundum stöðum í innanlandsflugi en einnig í stöðugt vaxandi Grænlandsflugi. Með þeim aukna hraða sem þessi tegund flugvéla býður uppá verða einnig nýir áfangastaðir skoðaðir.
Fyrir er Flugfélag Íslands með tvær Bombardier Q200 37 sæta flugvélar í rekstri. Gert er ráð fyrir að fyrsta Q400 vélin verði komin í flota félagsins fyrir árslok en seinni tvær komi í rekstur í upphafi árs 2016.
Töluvert hagræði fylgir því að taka upp þessa tegund flugvéla, ekki einungis stærðar hagkvæmni heldur er þjálfun flugmanna sambærileg á Q400 og Q200 og munu því allir flugmenn félagsins geta flogið öllum flugvélum félagsins án umfangsmikillar viðbótarþjálfunar. Einnig fylgir því hagræði að hafa einungis einn flugvélaframleiðanda sem birgja.
Um 500 Q400 vélar hafa verið framleiddar frá árinu 2000 og eru þær í notkun í öllum heimsálfum og margir stórir flugrekendur í Evrópu hafa valið Q400 í sinn flota, þannig rekur Flybe í Bretlandi um 60 slíkar vélar, Wideroe í Noregi hefur 11 Q400 í sínum flota og þannig mætti lengi telja.
Með því að taka upp þessa tegund flugvéla erum við ekki einungis að styrkja rekstur Flugfélags Íslands á núverandi markaði þess heldur einnig að skapa möguleika til að bæta nýjum stoðum undir reksturinn. Með þessari ákvörðun hefur verið lagður grunnurinn að öflugri uppbyggingu Flugfélags Íslands til framtíðar segir Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands