Flugrekendur ekki þrýst á stækkun flugstöðvarinnar á Akureyri

„Það hefur ekki verið neinn þrýstingur af okkar hálfu á að flugstöðin á Akureyrarflugvelli verði stækkuð," segir Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands.  Í sama streng tekur Friðrik Adolfsson framkvæmdastjóri Norlandair.  Stjórn Markaðsstofu ferðamála á Norðurlandi hefur ályktað um að bráðnauðsynlegt sé að stækka flugstöðina og er þá miðað við það markmið stofunnar að stórauka móttöku á erlendum ferðamönnum.  

Fram kom í máli fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, í síðustu viku að ekki hefði orðið vart þrýstings frá flugrekendum að þá átt að ráðast í stækkun flugstöðvarinnar.  Árni framkvæmdastjóri FÍ segir að flugstöðin þjóni ágætlega starfsemi félagsins. „Við erum sátt við flugstöðina eins og hún er nú."

Friðrik Adolfsson framkvæmdastjóri Norlandair segir flugstöðina henta innanlandsfluginu ágætlega, „hún er afbragðsgóð fyrir innanlandsflugið, en vissulega er stundum þröng á þingi þegar millilandaflug er einnig í gangi," segir hann.  Hann segir að ef til stækkunar kæmi myndi kostnaður við uppbyggingina lenda á flugrekendum, „og þeir mega ekki við meiri álögum eins og staðan er."  Friðrik segir að vissulega væri í lagi að stækka flugstöðina ef millilandaflugið myndi borga brúsann og þá væri stækkun líka lyftistöng fyrir byggingaiðnaðinn  í bænum.  Áskorun Markaðsstofunnar um stækkun hljóti að byggjast á framtíðarsýn til næstu 20-30 ára, því eins og staðan væri nú stangaðist millilandaflugið ekki að ráði á við innanlandsflugið.

Stefnan að stórauka komu erlendra ferðamanna norður

Ásbjörn Björgvinsson framkvæmdastjóri Markaðsstofu ferðamála á Norðurlandi segir brýnt, miðað við stefnu stofunnar, að stækka flugstöðina, enda gengi hún út á að stórauka komur erlenda ferðamanna til Akureyrar með auknu millilandaflugi.  Ef áætlanir gengju eftir væri núverandi flugstöð ekki boðleg, hún væri of lítil og ekki hægt að bjóða farþegum í innanlandsflugi upp á að híma úti á hlaði í þá tvo tíma sem tekur að afgreiða vélar í millilandaflugi.

Ásbjörn segir að Iceland Express muni í sumar bjóða upp á ferðir til Kaupmannahafnar og London, þannig að ljóst væri að umsvifin í millilandafluginu yrðu þó nokkur.  Þá eru að jafnaði 6-8 áætlunarflug innanlands á hverjum degi.  Ásbjörn bendir á að ef auka eigi vetrarferðaþjónustu á Norðurlandi þurfi ferðamenn að koma til landsins í gegnum Akureyri, ekki Keflavík.  Þá segir hann að best fari á því að tengja saman verkefni við samgöngumiðstöð í Vatnsmýri í Reykjavík og uppbyggingu á flugstöðinni á Akureyri og færa hvoru tveggja til nútíma horfs.

Nýjast