Flugeldasala björgunarsveitanna er í fullum gangi

Sala flugelda er grundvöllurinn að starfi björgunarsveita á Íslandi og síðustu fjóra daga hvers árs leggja sveitirnar fjárhagslegan grunn að starfi sínu næsta árið. Flugeldamarkaður Súlna, björgunarsveitarinnar á Akureyri við Hjalteyrargötu er opinn í kvöld til kl. 22 og á morgun gamlársdag frá kl. 9-16.  

Leonard  Birgisson, félagi í Súlum, segir að í dag standi björgunarsveitir frammi fyrir þeirri staðreynd að innkaupsverð flugelda hefur hækkað gríðalega milli ára og ljóst sé að þeirri hækkun verði erfitt að mæta. "Reyndar hækkar söluverð flugelda nokkuð en ljóst er að innkaupsverð á einhverjum vörum hefur nánast tvöfaldast frá fyrra ári. Þetta þýðir einfaldlega að hagnaður björgunarsveita minnkar og hætt við að reksturinn verði þungur hjá mörgum næsta árið." Leonard segir að ljóst að efnahagur heimila og fyrirtækja sé að þrengjast en engu að síður megi gera ráð fyrir því að Íslendingar skjóti upp flugeldum þótt það verði ef til vill í minna mæli en áður. "Því er mikilvægt að landsmenn sýni samfélagslega ábyrgð og beini viðskiptum sínum á þá staði sem þjóna samfélaginu, til björgunarsveita Slysavarnarfélagsins Landsbjargar."

Nýjast