Flokkakerfi í vanda?

Ingi Rúnar Eðvarðsson, prófessor við Háskólann á Akureyri skrifar   Í upphafi nýs árs er eins og flokkakerfið sé úr liði. Margir kjósendur syngja því með U2 "I still haven't found what I am looking for". Þetta sjáum við með ýmsum hætti. Eldri borgarar íhuga að stofna eigin flokk. Framtíðarlandið eru einnig að kanna flokksstofnun og innflytjendamálin eru að valda flokkunum vanda. Þá er valdið að færast til viðskiptalífsins eins og glögglega má sjá varðandi upptöku evrunnar.

Steinrunnar stofnanir?
Spyrja má hvað veldur þessum vanda flokkanna? Nú þegar Framsóknarflokkurinn er nýlega búinn að halda upp á 90 ára afmæli sitt má velta vöngum yfir því hvort stjórnmálaflokkar séu orðnar steinrunnar stofnanir eins og þjóðkirkjan? Að þeir skynji ekki lengur strauma þjóðlífsins, séu hreinlega úr takti við tímann? Sífellt minnkandi þátttaka fólks í flokksstarfi er merki um slíkt. Þá er spurning hvort ríkisvæðing flokkanna sem var samþykkt á síðasta þingi auki ekki enn á þennan vanda?

Skortur á trausti
Ég held að það fari ekki á milli mála að flokkakerfið þarf að auka trúverðugleika sinn. Þannig treysta eldri borgar ekki ríkisstjórnarflokkunum til að bæta kjör sín eftir 12 ára sveltistefnu. Þeir treysta heldur ekki á stjórnarandstöðuna, að henni takist að ná völdum og breyta kjörum sínum. Því vilja þeir stofna eigin flokk. Hið sama má segja um Framtíðarlandið. Alkunna er að ríkisstjórnarflokkarnir eru stóriðjuflokkar og stjórnarandstaðan að Vinstri grænum undanskyldum hafa ekki talað nægilega skýrum rómi í náttúruverndinni. Það hlýtur að vera stjórnarandstöðunni áhyggjuefni að hún virðist ekki njóta trausts nægilega stórs hluta kjósenda.

Valdið til viðskiptalífsins
Á liðnum áratug eða svo hafa orðið miklar breytingar í viðskiptalífinu. Með EES samningnum urðu milliríkjaviðskipti frjálsari, hnattvæðing jókst, einkavæðing einnig og þannig má lengi telja. Þetta hefur haft í för með sér að stjórnendur stærri fyrirtækja hafa fengið sífellt meiri völd. Það birtist bæði í launakjörum þeirra og áhrifum. Nú er seðlabankastjóri bara með brot af launum bankastjóra stærstu bankanna. Áður fyrr þurftu fyrirtæki á pólitískri fyrirgreiðslu að halda til að efla sig. Nú er þessu öfugt farið. Nú þurfa stjórnmálamenn á stuðningi fyrirtækja að halda. "Please don't go". Þeir biðla til fyrirtækja til að fara ekki úr landi með starfsemi sína. Það þýðir að upptaka evrunnar eða erlendra mynta í viðskiptum verður orðin að raunveruleika á næstu misserum. Þetta hefur einnig önnur áhrif í för með sér. Ungt framsækið fólk sem áður leitaði í stjórnmálin eftir völdum og áhrifum fer nú til starfa hjá stórfyrirtækjum. Það getur haft veruleg áhrif fyrir samsetningu þingmanna á Alþingi í framtíðinni. Kannski sjáum við þess merki þegar í dag. Mér finnst ekki vera mjög margir þingmenn á þingi sem geti greint vanda samtímans og bent á viðunandi lausnir.

Horft til framtíðar
Það einkennir stjórnmálaflokka eins og aðrar stórar stofnanir að þeim hættir til að líta til baka og byggja á grónum hefðum. Fyrir vikið reinist þeim örðugt að horfa fram á veginn. Mikið af þeim brýnu viðfangsefnum stjórnmálanna í dag tengjast hnattvæðingunni, ef vandi aldraðra og öryrkja er undanskilinn. Öldrunar- og öryrkjamálin eru klassísk skattastefnumál. Aukinn straumur innflytjenda, fjárfestingar fjölþjóðlegra fyrirtækja eins og útrásarfyrirtækja, gengi gjaldmiðla, hlýnun jarðar og eiturlyfjavandinn er alþjóðlegur í eðli sínu. Mér virðist að íslenkir stjórnmálaflokkar líta í miklu mæli á þessi viðfangsefni sem innlend vandamál sem eigi að leysa á innlendum vettvangi. Í því liggur vandi flokkakerfins í dag. Stjórnendur stjórnmálaflokkanna eiga mikið verk fyrir höndum í upphafi kosningabaráttunnar. Þeir þurfa að greina vanda samtímans, benda á viðunandi lausnir og reyna þannig að auka traust sitt gagnvart almenningi

Nýjast