Flogið með um 500 sjúklinga í 476 flugum

Flestir sjúklingar fara til aðhlynningar á sjúkrahús í Reykjavík.
Flestir sjúklingar fara til aðhlynningar á sjúkrahús í Reykjavík.

Sjúkraflug á liðnu ári voru alls 476, sem er aukning frá síðasta ári, en þá voru þau 440 talsins. Flogið var með rúmlega 500 sjúklinga í sjúkraflugunum. Lætur nærri að tveir af hverjum þremur sjúklingum séu fluttir á Landsspítala háskólasjúkrahús í Reykjavík. „Almennt gekk sjúkraflugið á nýliðnu ári vel,“ segir Leifur Hallgrímsson framkvæmdastjóri Mýflugs sem sér um sjúkraflugið. Útköllin voru oft og tíðum krefjandi, veðurskilyrði erfið og þá komu upp eldgos í Grímsvötnum. 

„Við munum ásamt  Slökkviliði Akureyrar og læknum Sjúkrahússins á Akureyri, standa vaktina áfram,“ segir hann. Alls voru á liðnu ári 18 sjúkraflug farin til útlanda, flest til Grænlands.  Lengsta sjúkraflugið var frá Kulusuk í Grænlandi til Kaupmannahafnar. Flest voru útköllin í ágúst, 50 talsins. Leifur segir að á þeim tíma sem Mýflug hafi sinnt sjúkraflugi hafi þau flest orðið 496 og farið niður í um 400. „Þetta er svolítið upp og ofan, en að jafnaði eru þau þau á bilinu 400 til 500 ár hvert,“ segir hann.  Flestir eru sem fyrr segir fluttir til aðhlynningar á hátæknisjúkrahús í Reykjavík eða á bilinu 300 til 350 sjúklingar.  „Það er gríðarlega mikilvægt að Reykjavíkurflugvöllur sé staðsettur í námunda við eitt best búna sjúkahús landsins.  Það kemur fyrir nokkuð oft á hverju ári að það er bara spurning um mínútur að sjúklingur nái að komast undir læknishendur,“ segir Leifur. Það að Reykjavíkurflugvöllur sé í Vatnsmýri í er lykillinn að góðu aðgengi landsbyggðarbúa að helsta sjúkrahúsi landsins.

Verði Reykjavíkurflugvöllur færður til, segir Leifur, að eigi jafnræði að ríkja meðal landsmanna verði að færa sjúkrahúsið líka.  „Kostirnir eru skýrir í mínum huga, ef byggt verður nýtt sjúkrahús á þeim stað þar sem það er nú en Reykjavíkurflugvöllur færður, eiga höfuðborgarbúar að greiða uppbygginguna við sjúkrahúsið, ekki íbúar landsbyggðarinnar sem hafa ekki greiðan aðgang að því,“ segir Leifur.

Nýjast