Ekki hlaust tjón af þegar lítillega flæddi inn í kjallara Síðuskóla í morgun, en betur fór en leit út fyrir á tímabili. Að sögn Ólafs Thorarensen skólastjóra myndaðist gríðarlega stór pollur suðvestan við skólabygginguna vegna hlákunnar undanfarið. „Niðurfallið sem átti að taka við vatninu úr pollinum hafði stíflast. Þegar við náðum að losa stífluna þar þá kom vatnið bara upp um svelgina í kjallaranum í skólanum. Við stífluðum aftur niðurfallið í pollinum þannig að það hætti sem betur fer að flæða í kjallarann,” sagði Ólafur.
Hann segir að ekki hafi mikið flætt inn í kjallarann og þegar starfsmenn bæjarins hafi fundið hvar fyrirstaðan í niðurföllunum var hafi vatnið farið aftur að síga úr kjallaranum. Einnig hafi hjálpað til að þar sé lyfta og undir henni vatnsdæla, því hafi verið hægt að sópa töluverðu af vatninu í dæluna og láta hana dæla því í burtu. „Það varð ekkert tjón eftir því sem ég best veit sagði Ólafur og bætti við að lokum: „Það var hins vegar mikið fjör í pollinum fyrir utan húsið þegar krakkarnir fengu frímínútur, þau sögðu mér í morgun þegar þau sáu pollinn að það yrði sko gaman í frímínútum og það varð heldur betur raunin."