20. ágúst, 2007 - 11:37
Fréttir
Það verður mikið um að vera á tjaldsvæðinu að Hömrum helgina 25. og 26. ágúst nk. en þá verður haldinn þar flóamarkaður til styrktar bágstöddum í Mósambik undir yfirskriftinni „Gerum eitthvað gott, gerum það saman". Markaðurinn er nú haldinn annað árið í röð en að honum standa þær Margrét Þóra Einarsdóttir og Guðrún Blöndal en einnig leggja skátar á Akureyri hönd á plóg, starfsmenn bæjarins og fleiri. Fyrir ári safnaðist rúmlega 1,1 milljón króna, sem rann til uppbyggingar á munaðarleysingjaheimili í Mósambik. Að þessu sinni verður þeim fjármunum sem safnast varið til að byggja við barnaskóla í bæ í Mósambik sem heitir Lamego og vonast Margrét til að hægt verði að byggja fjórar kennslustofur, salerni og kennarahús. Í dag fer kennsla yngstu barnanna í skólanum fram undir tré, sem verða að teljast frekar frumstæðar aðstæður. Þessa dagana er verið að safna á flóamarkaðinn og hafa bæjarbúar tekið vel við sér, gefið húsgögn og fleira, reyndar allt frá lyklakippum til ísskápa, að sögn Margrétar. Hún sagði að í ár tækju starfsmenn Akureyrarbæjar þátt í að sækja muni heim til fólks og enn er hægt að leggja þessu máli lið með því að gefa á flóamarkaðinn og/eða að mæta að Hömrum um aðra helgi. Þar verður einnig boðið upp á skemmtiatriði og dagskrá fyrir börnin og hægt verður að kaupa veitingar. „Það geta allir tekið þátt í þróunarstarfi, án þess að þurfa að hafa mikið fyrir því eða leggja í mikinn kostnað."
Margrét starfaði í Mósambik fyrir um 10 árum og Marta systir hennar starfar þar í dag hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Marta er jafnframt tengiliður verkefnisins þar. Margrét sagðist vilja hvetja Norðlendinga til að taka þátt í þessu verkefni og þeir sem vilja gefa á flóamarkaðinn geta haft samband við hana í síma 865 3494 eða Guðrúnu í síma 865 6675. Nánari upplýsingar um verkefnið fá finna á www.123.is/gott