Flestir hestar á Akureyri hafa smitast af hóstapestinni

Flestir hestar í hesthúsum Akureyringa hafa fengið hóstapestina sem herjað hefur á hross víða um land.  „Hún stakk sér niður hér hjá okkur fyrir viku til 10 dögum og nú má segja að flestir hestar séu smitaðir eða að smitast," segir Elfa Ágústsdóttir dýralæknir á Akureyri.  

Hún segir að hestar verði ekki ekki mikið veikir af hóstapestinn einni og sér, en hliðarsýkingar sem upp hafa komið í hrossum í kjölfar hennar hafi lagst þungt á þau.  „Við njótum góðs af því að pestin hefur áður komið upp t.d. á Suðurlandi og Skagafirði og vitum því betur hvernig best er að bregðast við," segir Elfa.  Mestu skiptir að hvíla hestana vel og þá gengur veikin yfir á til þess að gera skömmum tíma.  Þeir sem hafa notað veika hesta hafa margir lent í meiri hremmingum, því hrossin hafa þá tekið ýmsar bakteríusýkingar til viðbótar hóstanum.  „Það er auðvitað átak að leyfa hrossunum að hvíla sig, framundan eru kynbótasýningar, Landsmót og annað svo það er mikilvægt að þjálfa hrossin.  Mér sýnist Akureyringar hafa tekið vel í tilmæli um að hvíla hrossin vel, það sést varla maður á hestbaki hér um þessar mundir," segir Elfa.

Þá segir hún að til skoðunar sé að opna hólf í bæjarlandinu fyrr en vanalega, þau eru opnuð jafnan 1. júní, en ef vel viðrar næstu daga verði ef til vill hægt að opna þau fyrr, betra sé fyrir hrossin að vera úti við en inni í hesthúsum á meðan veikin gengur yfir.

Nýjast