Flestir á ferðinni vegna einkaerinda

„Eitt af því sem ýmsum kom á óvart í könnuninni í sumar var að um fjórðungur allra þeirra sem voru á ferð um könnunarstaðina voru búsettir á höfuðborgarsvæðinu sem rímar þó ágætlega við þann fjölda sem er á ferð í sumarleyfi.  Síðastliðið haust hefur hlutfall höfuðborgarbúa vissulega minnkað og er rétt tæp 10% sem þó verður að teljast dágóður hópur sem áhugavert er að setja í samhengi við umræðuna um það hverjir njóta þess þegar ráðist er í vegabætur á dreifbýlum svæðum," segir Kjartan Ólafsson hjá Háskólanum á Akureyri.  

HA stóð fyrir umferðarkönnun í tengslum við umfangsmikla rannsókn á samfélagsáhrifum Héðinsfjarðarganga í lok október í haust. Könnunin er sambærileg annarri sem gerð var í sumar. Hún fór fram með þeim hætti að allir bílar sem leið áttu um gatnamótin við Ketilás í Fljótum og um veginn milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar voru stöðvaðir og ökumenn þeirra beðnir um að svara fáeinum spurningum. Á sama hátt og könnuninni í sumar var ætlað að gefa mynd af umferðinni á dæmigerðum sumardögum, var könnuninni í október ætlað að endurspegla umferð að vetrarlagi. 

Alls tóku um 1.050 bílstjórar þátt í könnuninni í lok október í samanburði við tæplega 2.700 bílstjóra í sumar og vetrarumferðin var því um 40% af umferðinni í sumar.  Um 60% ökumannanna sem tóku þátt í könnuninni voru á stöðvaðir á leiðinni milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar og umferðin þar var því heldur meiri en um vegamótin við Ketilás. Að sögn Kjartans eiga kannanirnar í sumar og vetur það sammerkt að stærstur hluti ferða telst vera einkaerindi, eða tæp 50% í sumar og rúm 60% í október.  Í júlí voru tæp 30% umferðarinnar fólk á ferð í sumarleyfi en þessi hópur er eðli málsins samkvæmt ekki til staðar í könnuninni frá því í lok október.  Þeir sem eru á ferð í atvinnutengdum erindagjörðum eru aftur á móti tæp 30% í október könnuninni í samanburði við rúm 10% í könnuninni í júlí.

Nýjast