Flest tilboð yfir kostnaðaráætlun

Aðeins fáir aðilar buðu í fjölda verkþátta sem snúa að trésmíðavinnu og múrverki í menningarhúsinu Hofi á Akureyri en tilboð voru opnuð í morgun. Magnús Garðarsson eftirlitsmaður nýframkvæmda hjá Fasteignum Akureyrarbæjar var heldur óhress með þessa niðurstöðu en hér var um að ræða annað útboð á þessum verkþáttum, sem að þessu sinni hafði verið skipt mikið niður.

Magnús sagðist reyndar hafa átt von á fáum tilboðum en hann er óhress með að hafa ekki fengið tilboð í alla verkþætti, þótt ágætis tilboð séu inn á milli og þá er hann ekki sáttur við að hafa ekki fengið fleiri tilboð í múrverkið.Trésmíðavinnunni hafði verið skipt upp í sjö verkþætti og múrverkinu í tvo verkþætti. Flest tilboðin sem bárust í útboðinu voru yfir kostnaðaráætlun og mestur var munurinn 238%  á sérsmíði og innréttingum. Eina tilboðið sem barst, frá P.A. Byggingaverktaka ehf., var upp á rúmar 80 milljórnir króna en kostnaðaráætlun var rúmar 33 milljónir króna. Þrír aðilar buðu í verkþáttinn; gipsvinna, veggir og föst loft og voru þau öll vel yfir kostnaðaráætlun. Lægsta tilboð átti Timbursmiðjan ehf., tæpar 85 milljónir króna eð 120% af kostnaðaráætlun. Hin tilboðin tvö, frá P.A. Byggingarverktaka og Sigurgeir Svavarssyni ehf. voru upp á 135% og um 158%.Aðeins Timbursmiðjan bauð í loftaklæðingar, tæpar 35 milljónir króna, eða 118% en kostnaðaráætlun var rúmar 29,5 milljónir króna. ÁK smíði ehf. bauð í parket og gólfvinnu og var tilboð fyrirtækisins upp á 65 milljónir króna, eða 155% en kostnaðaráætlun var um 42 milljónir króna. Þrjú tilboð bárust í hurðir og inniglugga og voru öll vel yfir kostnaðaráætlun, sem var tæpar 40 milljónir króna. Timbursmiðjan bauð lægst, tæpar 48 milljónir króna, eða 121%. P.A. Byggingaverktaki bauð rúmar 50 milljónir króna og Ölur ehf. tæpar 60 milljónir króna. Timbursmiðjan átti einnig lægra tilboðið af tveimur í felliveggi og var það langt undir kostnaðaráætlun, rúmar 10 milljónir króna, eða tæp 77%. Fyrirtækið átti eina tilboðið í glerveggi og glerfelliveggi, tæpar 4 milljónir króna og var það einnig vel undir kostnaðaráætlun.Pétur J. Jónsson var sá eini sem lagði inn tilboð í verkþættina tvo í múrverkinu. Í verþáttinn; terrazzogólf og stigar, bauð hann tæpar 17 milljónir króna, sem er rúm 82% af kostnaðaráætlun. Í annað múrverk bauð Pétur 66,6 milljónir króna, rúmlega 156% af kostnaðaráætlun, sem var upp á 42,5 milljónir króna. Pétur setti fyrirvara með tilboðum sínum, þar sem m.a. kom fram hörð gagnrýni á ýmsa þætti sem tengjast útboðinu. 

Nýjast