FK gagnrýnir tökur Fast 8 við Mývatn

Gísli Rafn Jónsson vann við það í nokkrar vikur að fjarlægja snjó af brautunum á ísnum á Mývatni með…
Gísli Rafn Jónsson vann við það í nokkrar vikur að fjarlægja snjó af brautunum á ísnum á Mývatni með snjótroðara. Mynd: BFH.

Félag kvikmyndagerðarmanna gerir athugasemdir við frumvarp iðnaðarráðherra um hækkun tímabundinnar endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Hlutfall endurgreiðslunnar stendur til að hækka úr 20 prósentum í 25 prósent, m.a. til að bregðast við aukinni samkeppni um erlend kvikmyndaverkefni frá löndum eins og Noregi.

Félagið krefst þess að það verði skilyrði fyrir endurgreiðslu að þjónustufyrirtæki og þeir sem kaupi þjónustu virði íslensk lög um vinnutíma, laun, aðbúnað og hollustuhætti svo og íslenska kjarasamninga að fullu. Félagið gagnrýnir jafnframt tökur Fast 8 við Mývatn.

Félag kvikmyndagerðarmanna, FK,  styður frumvarpið en þó með athugasemdum, eins og fram kemur í umsögn þess til atvinnuveganefndar Alþingis. 

FK bendir á að brögð séu að því að „sumir íslenskir framleiðendur og þjónustufyrirtæki láti starfsfólk skrifa undir samninga sem innihalda ólögleg ákvæði um vinnutíma.“ Félagið segir einnig að borið hafi á því að brotið sé á fólki hvað varðar hvíldartíma, öryggi á tökustað og aðbúnað. Það verði því skilyrði að þeir sem ætli að nýta sér endurgreiðsluna virði íslensk lög um vinnutíma, laun, aðbúnaða og hollustuhætti.

FK gerir einnig athugasemdir við tökur Fast 8 á Mývatni. „Nú nýlega var viðkvæmu vistkerfi Mývatns og Langavatns raskað með sprengingum og bílaumferð útá ís sem endaði með ósköpum, m.a með tveimur gröfum sem sukku í vatnið með tilheyrandi mengun og raski.“

Félagið telur slíkt ekki ásættanlegt þegar um slíkar náttúruperlur er að ræða „og svo ekki minnst á það að um er að ræða fiskivötn.“ Skylda þurfi tökulið til að umgangast náttúru landsins af virðingu og fullri sátt við náttúruverndarsjónarmið.

Samkvæmt Umhverfisstofnun hlaust lítil sem engin mengun af því þegar gröfurnar tvær féllu ofan í Mývatn.  Stofnunin gaf út þrjú leyfi fyrir tökunum við og á Mývatni. Tökuliðið var beðið um að lágmarka fjölda bifreiða og tækja á ísnum hverju sinni til að draga úr óþarfa áhættu í síðasta leyfinu, sem gefið var út 1. apríl.

Umhverfisstofnun bannaði athafnir á svæðum sem gætu verið með veikum blettum og lagði til að  girða slík svæði af og halda allri umferð frá þeim. þegar tökuliðið fékk leyfi til sprenginga á Langavatni, sagði Veiðimálastofnun að fiskur gæti drepist en áhrifin væru tímabundin og staðbundin. /epe

Nýjast