Fjórir í haldi vegna Molotov-málsins

Lögreglustöðin á Akureyri.
Lögreglustöðin á Akureyri.

Fjórir einstaklingar eru í haldi lögreglunnar á Akureyri vegna rannsóknar á árásum á hús fulltrúa sýslumannsins á Akureyri. Tveir menn voru í fyrstu handteknir í miðbæ Akureyrar í gærmorgun vegna málsins. Í gærkveldi voru síðan þrír menn til viðbótar handteknir vegna rannsóknar málsins. Frá þessu er greint á Vísir.is.

Eins og Vikudagur greindi frá í morgun vakta sérsveitarmenn á vegum ríkislögreglustjóra hús fulltrúa sýslumannsins þar sem bensínsprengju, svokölluðum Molotovkokteil, var kastað í mannlausan bíl um fimmleytið í fyrrinótt. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið yfir rannsókn málsins þar sem lögreglan á Akureyri telst vanhæf vegna tengsla við fórnarlambið. 

Atvikið átti sér stað við heimili mannsins í Grundargerði í Brekkuhverfi og telur lögreglan að um hefndaraðgerð sé að ræða gegn fulltrúa sýslumannsins.  Nágrannar mannsins í Grundargerði sem Vikudagur hefur rætt við eru óttaslegnir og hafa sumir þeirra ákveðið að vopnast af ótta við frekari ódæðisverk í hverfinu.

Nýjast