Fjölskylduhjálpin hætti starfsemi á Akureyri vegna húsnæðisleysis

Fjölskylduhjálp Íslands úthlutaði síðast matvælum á Akureyri rétt fyrir páska, en samtökin misstu húsnæði sem þau höfðu til umráða um miðjan apríl. „Þetta er mjög bagalegt því þörfin fyrir norðan er mjög mikil," segir Ásgerður Jóna Flosadóttir framkvæmdastjóri Fjölskylduhjálpar Íslands. Hún sagði að Fjölskylduhjálpin hefði starfað í alls 6 mánuði á Akureyri og afgreiðslur á þeim tíma voru um 1600 talsins.  

„Við urðum áþreifanlega vör við að það er mikil þörf fyrir okkar starfsemi í bænum," segir Ásgerður Jóna. „Straumurinn var mestur í lok hvers mánaðar, þá komu allt að 100 manns. Það segir sína sögu um hvað neyðin er víða mikil."  Hún bendir á að Fjölskylduhjálpin úthluti matvælum í hverri viku allan ársins hring. Fjölskylduhjálp Íslands hafði til umráða húsnæði við Freyjunes 4, það var í eigu Landsbankans og fengu samtökin að halda úti starfsemi sinni þar án endurgjalds.  Húsnæðið var selt á dögunum og því situr Fjölskylduhjálpin uppi húsnæðislaus á Akureyri.  „Það er mjög dapurlegt, en við höfum því miður ekki fundið húsnæði sem hentar.  Allt okkar starf er unnið í sjálfboðavinnu og við kaupum matvæli fyrir sjálfsaflafé, við höfum ekki ráð á því að kaupa húsnæði undir starfsemina, en það eina sem okkur hefur boðist er húsnæði til kaups," segir Ásgeður Jóna og bætir við að það sé ekki á dagskrá. Fjölskylduhjálpin þarf um 200 fermetra húsnæði og að því þarf að vera gott aðgengi.  „Ef einhver hefur yfir slíku húsi að ráða sem við gætum nýtt endurgjaldslaust bið ég menn að hafa samband við mig," segir Ásgerður Jóna.

Nýjast