Fjölskyldan í Laufási flytur að Grýtubakka 1 í sumar

„Við erum mjög fegin því að málinu er nú lokið og farsæl lausn hefur fundist," segir Þórarinn Pétursson bóndi í Laufási í Eyjafirði, en hann og fjölskylda hans munu flytja af jörðinni  í sumar. Þau hafa skrifað undir samning um leigu á Grýtubakka 1, hann er til fjögurra ára og með forkaupsrétti.  

Stjórn prestsetra hafði gert fjölskyldunni að fjarlæga íbúðarhús sitt af jörðinni við Laufás og á Þórarinn von á að það verði flutt burt næsta sumar. Hann hefur þegar fengið nokkur tilboð í húsið til flutnings. Þórarinn segir að allir séu ánægðir með þessi málalok og hlakki til að hefja nýtt líf á nýjum stað í sveitarfélaginu.  „Mér líst mjög vel á þessa jörð, ef ég hefði mátt velja hvaða jörð sem er í hreppnum hefði þessi orðið fyrir valinu," segir Þórarinn.  Góður húsakostur er þar ofarlega á blaði og gildir bæði um íbúðarhúsnæði sem og útihús.  Þá liggur jörðin á góðum stað, undir heiðinni og allt land umhverfis er að sögn Þórarins gott.

Þórarinn ætlar ekki nýta land í Laufási fyrir búskap, hann leigir bæði tún og útihús að Lómatjörn og tún í Skarði.  Hann gerir ráð fyrir að vera með  allt að 1100 ær í húsi næsta vetur. „Það er bara það sem þarf, menn verða að hafa sæmilega innkomu til að standa undir þessu," segir hann.  Fjölskyldan mun kaupa bústofn af núverandi ábúendum á Grýtubakka, líklega um 150 kindur.

Fjölskyldan tekur við jörðinni 1. júní, en íbúðarhúsið verður afhent 1. ágúst. „Við fáum örugglega að lúra á gólfinu hjá mömmu í millitíðinni," segir hann en foreldrar Hólmfríðar Björnsdóttur eiginkonu hans búa einnig á Grenivík þannig að Þórarinn taldi lítil vandræði í því fólgin að vera húsnæðislaus í nokkrar vikur.

Nýjast