Það var mikil og góð stemmning í Hlíðarfjalli um liðna helgi, stólalyftan Fjarkinn var opin og fjölmenni lagði þangað leið sína og nýtti tækifærið. „Aðsóknin fór fram úr mínum væntingum,“ segir Guðmundur Karl Jónsson forstöðumaður í Hlíðarfjalli
„Fyrir okkur vakir að opna enn fleiri tækifæri til útivistar í Hlíðarfjalli á sumrin, en fyrir hendi er góð aðstaða bæði fyrir hjóla- og göngufólk. Fólk í Hjólreiðafélagi Akureyrar hefur lagt nokkrar hjólabrautir á svæðinu og með því að bjóða upp á ferð með lyftunni upp að Strýtu opnast heldur betur góð leið til að nýta þær,“ segir Guðmundur Karl. Stór hluti þeirra sem nýtti sér sumaropnun Fjarkans um liðna helgi var einmitt hjólafólki, ríflega helmingur þeirra sem komu og fóru margir nokkrar ferðir, „menn vilja auðvitað prófa allar brautirnar,“ segir hann.
Lyftan verður opin allar helgar fram til 26. ágúst næstkomandi, opið er föstudag, laugardag og sunnudag frá kl. 10 til 13 og 13.30 til 17 og kostar farið 1000 krónur fyrir fullorðna og 700 fyrir börn. Lyftumiða er hægt að kaupa á staðnum og á heimasíðu Hlíðarfjalls.