Tilgangurinn með göngunni er að bæjarbúar sýni samstöðu og samhug, láti í ljós skoðun sína á ástandinu og láti rödd sína heyrast. Talsmenn göngunnar leggja áherslu á að hér sé um óflokkspólitíska uppákomu að ræða, aðeins andsvar við því hvernig komið er fyrir íslensku samfélagi og áskorun um að hafist verði handa við að byggja upp nýtt samfélag þar sem mannauður verði í fyrirrúmi. Einnig var verið að sýna samstöðu með friðsælum mótmælum sem haldin voru á sama tíma í Reykjavík, þar sem mikill fjöldi fólks kom einnig saman.