Fjölgað um 140 íbúa á Akureyri á milli ára

Akureyri.
Akureyri.

Íbúafjöldinn á Akureyri þann 1. desember sl. var 19.040 og er það fjölgun um 140 íbúa frá 1. desember 2018, eða 0,7%. Þetta kemur fram á vef Þjóðskrár Íslands. Athygli vekur hins vegar að bæjarbúum hefur fækkað um 18 manns á einum mánuði eða síðan 1. nóvember sl. Þá var íbúafjöldinn 19.058.

Töluverð fjölgun er í Eyjafjarðarsveit á milli ára eða 2,8%. Íbúar þar eru nú 1.070 og hefur íbúafjöldinn aukist um 29 manns á milli ára. Í Svalbarðsstrandahreppi fækkar hins vegar íbúum á milli ára um fimm manns. Nú búa þar alls 484. Sömuleiðis fækkar íbúum í Grýtubakkahreppi um sex manns á milli ára og er íbúafjöldinn þar nú 365. Í Hörgársveit fjölgar íbúum um fjóra eða 0,7%. Þar búa nú 617 manns. Í Dalvíkurbyggð fækkar íbúum um átta á milli ára og búa þar 1.900 manns.

Íbúum Reykjavíkur fjölgaði um 2.434 á tímabilinu frá 1. desember 2018 til 1. desember sl. Þetta er hlutfallsleg fjölgun upp á  1,9%. Þau sveitarfélög sem næst komu voru Kópavogur með 951 íbúa eða 2,6% fjölgun og Garðabær með 616 íbúa eða 3,8% fjölgun. Lítilsháttar fjölgun hefur orðið í öllum landshlutum frá 1. desember síðastliðnum.

Hlutfallslega mest fjölgun varð á Suðurlandi. Þar fjölgaði um 1.102 íbúa eða 3,7%. Íbúum landsins hefur fjölgað um 7.208 manns eða 2,0% á ofangreindu tímabili. Þann 1. desember sl. voru 363.879 einstaklingar skráðir með búsetu hér á landi samkvæmt skráningu Þjóðskrár Íslands.


Nýjast