Fjöldi sjúkrafluga kominn í 440 á árinu með 468 sjúklinga

Fjöldi sjúkrafluga ársins 2010 er nú kominn í 440 og hafa 468 sjúklingar verið fluttir með flugvélum Mýflugs. Ekki er loku fyrir það skotið að það bætist við þá tölu áður en árið er úti. Árið 2009 voru flugin 396 talsins. Fyrstu mánuði ársins var tíðni fluga svipuð eða hærri frá fyrra ári, og var mesti fjöldinn í maí þegar farið var í 49 útköll.  

Í sama mánuði tók félagið við sjúkraflugsþjónustu í Vestmannaeyjum sem nú er sinnt frá Akureyri. Hafði þessi breyting í för með sér lítilsháttar fjölgun fluga sem vel hefur gengið að sinna, ef frá eru talin áhrif eldgossins i Eyjafjallajökli. Í þau fáu skipti sem reynst hefur ófært fyrir flugvél til Vestmannaeyja hefur Landhelgisgæslan sent þyrlu til aðstoðar. Eldgosið í Eyjafjallajökli , sem stóð yfir frá 14. apríl til 23. maí, hafði talsverð áhrif á allt flug innanlands en vel gekk að sinna sjúkrafluginu þrátt fyrir það. Framan af voru flugvellirnir við Höfn í Hornafirði og í Vestmannaeyjum oftast lokaðir vegna öskufalls en þegar lokaðist í Reykjavík voru sjúklingar fluttir til aðhlynningar á Sjúkrahúsinu á Akureyri, sem yfirleitt var utan flugbannsvæðisins. Einnig var varaflugvél sett í gagnið sem er minna takmörkuð gagnvart flugi í öskuskilyrðum heldur en hefðbundnar skrúfuþotur.

Öskufallið hafði einnig í för með sér að í apríl var óskað eftir sjúkraflugi til Aasiaat og Upernavik á Vesturströnd Grænlands þegar flugvöllurinn í höfuðstaðnum Nuuk lokaðist. Eru það með lengstu sjúkraflugum sem farin hafa verið frá Akureyri. Fjöldi sjúkrafluga til Grænlands á árinu voru 15 talsins, og var síðast flogið þangað á aðfangadag. Þess má geta að sjúklingurinn sem þá var fluttur er á góðum batavegi, segir á vef Mýflug.

Starfsfólk Mýflug þakkar jafnframt Slökkviliði Akureyrar og læknum FSA fyrir samstarfið á árinu, ásamt öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóginn og hlakkar til áframhaldandi samstarfs.

Nýjast