Fjöldi innbrota upplýst

Rannsóknarlögreglan á Akureyri hefur upplýst fjölda innbrota sem framin hafa verið í bænum að undanförnu, og fjórir menn sem voru í haldi vegna þeirra hafa verið látnir lausir... Miklum verðmætum sem skiptu milljónum króna var stolið, en þessi verðmæti hafa að langmestu leiti fundist og þeim verið komið í hendur eigenda. Óupplýst eftir þessa hrinu innbrota er þjófnaður á dökkgrænni ,,pick-up" bifreið af bílasölu í bænum aðfaranótt sunnudags, en sú bifreið fannst á sunnudagsmorgun í Hörgá skammt sunnan við Þelamörk. Talið er líklegt að bifreiðin hafi af ásetningi verið sett fram af háum bakka og niður í ána. Rannsóknarlögreglan óskar eftir vitnum hafi einhver séð til ferða bifreiðarinnar aðfaranótt sunnudagsins.

Nýjast