25. júní, 2007 - 15:16
Fréttir
Fjöldaganga gegn umferðarslysum verður farin á Akureyri og í Reykjavík á morgun þriðjudag, undir yfirskriftinni; Göngum gegn slysum. Á báðum stöðum hefst gangan kl. 17.00 og á Akureyri verður gengið frá þyrlupalli við FSA, niður Þórunnarstræti, suður Glerárgötu inn á Ráðhústorg. Í lok göngu verður stutt athöfn til minningar þeim sem látið hafa lífið í umferðinni og til að sýna fórnarlömbum samstöðu.
Þar mun Guðrún Eggertsdóttir sjúkrahúsprestur halda stutta tölu. Að lokum verður 31 blöðru sleppt á báðum stöðum til minningar um þá sem létu lífið í umferðinni í fyrra. Vonast er til að sem flestir mæti í gönguna og taki með sér fjölskyldu, vini og vandamenn.