Fjölbreytt menningardaskrá í vetur hjá MAk

Vorið vaknar er stærsta uppsetning ársins hjá LA.
Vorið vaknar er stærsta uppsetning ársins hjá LA.

Leikár Leikfélags Akureyrar er tileinkað æskunni og metnaður lagður í að fá ungu kynslóðina í leikhúsið. Í fréttatilkynningu frá Menningarfélagi Akureyrar (MAk) segir að starfið í Samkomuhúsinu hafi strax hafist með miklum krafti þegar Leikfélag unga fólksins setti upp sýninguna Fml – fokk mæ læf í samstarfi við Menningarfélagið. Verkið fjallar um hvernig það er að vera unglingur í dag með öllum þeim hindrunum og áskorunum sem þessu sérstaka aldursskeiði fylgir. Fml var frumsýnt sl. föstudag en tvær sýningar verða um komandi helgi, á föstudag og á sunnudag. Leikkonurnar eru allar á aldrinum 13-16 ára og voru valdnar í áheyrnarprufum í vor. Leikstjóri Leikfélags unga fólksins er Vala Fannell.

Vorið vaknar stærsta uppsetningin

Galdragáttin og þjóðsagan sem gleymdist er nýtt fjölskylduverk úr smiðju Umskiptinga. Leikstjórn er í höndum Agnesar Wild en tónlistin er frá hinum norðlensku Vandræðaskáldum. Leikarar eru Hjalti Rúnar Jónsson, Jenný Lára Arnórsdóttir, Jóhann Axel Ingólfsson, Margrét Sverrisdóttir, Sesselía Ólafsdóttir og Vilhjálmur B. Bragason. Um nýja og spennandi sýningu er að ræða þar sem kunnuglegar og áður óþekktar þjóðsagnapersónur birtast á nýstárlegan og skemmtilegan hátt.

Stærsta uppsetning ársins er verðlaunasöngleikurinn Vorið vaknar eftir Steven Slater og Duncan Sheik en frumsýning er í upphafi nýs árs. Vorið vaknar fjallar um fyrstu kynlífsreynsluna, skólakerfið, kvíða og frelsisþrá þar sem tilfinningum krakkanna er fundinn farvegur í melódískri rokktónlist sem endurspeglar innra líf þeirra. Uppfærsla söngleiksins á Broadway árið 2006 hlaut átta Tony-verðlaun, þar á meðal sem besti nýi söngleikurinn. Vorið vaknar er nú sett upp í fyrsta sinn í atvinnuleikhúsi á Íslandi. Á meðal leikara eru Edda Björg Eyjólfsdóttir, Eik Haraldsdóttir, Jónína Björt Gunnarsdóttir, Júlí Heiðar Halldórsson, Þorsteinn Bachmann og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir. Marta Nordal leikstýrir.

Djákninn á Myrká snýr aftur

Vegna mikilla vinsælda snýr Djákninn á Myrká – Sagan sem aldrei var sögð aftur í Samkomuhúsið. Þessi sprenghlægilega og farsakennda meðhöndlun á þekktustu draugasögu Íslandssögunnar fór vel í áhorfendur enda ná leikararnir, Jóhann og Birna, að draga fram hverja persónuna á fætur annarri, lesa á milli línanna og skálda í eyðurnar. Sýningin er samstarf Menningarfélags Akureyrar og Leikhópsins Miðnætti.

Á tónlistarsviðinu er ekki síður spennandi dagskrá. Strax í september verður boðið upp á alvöru íslenskt hljómleikabíó fyrir alla fjölskylduna þegar teiknimyndin LÓI – Þú flýgur aldrei einn verður sýnd í lifandi flutningi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands undir stjórn Atla Örvarssonar. Tónlistarmaðurinn Högni Egilsson úr Hjaltalín verður sérstakur gestur og syngur eitt lag úr myndinni. Af þessum fjölskyldutónleikum, sem er samvinnuverkefni Menningarfélags Akureyrar, RIFF, Saga Film, GunHill og menningarbrúar Hofs og Hörpu, má enginn kvikmyndaunnandi má missa af.

Í október mun söngkonan Andrea Gylfadóttir og bandaríski saxófónsnillingurinn Phillip Doyle, ásamt Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, flytja kvikmyndalög í Hofi. Um framhald á bíóbandsþema Andreu til margra ára er að ræða sem og vinsælum tónleikum hennar með Doyle í Hofi. Einar Scheving, Pálmi Gunnarsson og Kristján Edelstein ganga til liðs við SN á þessum tónleikum en Kjartan Valdemarsson hefur útsett lögin og verður hljómsveitarstjóri á þessum sérstöku sinfóníutónleikum.

Svanavatnið

Í nóvember er komið að hátíðarballettnum frá Pétursborg að flytja Svanavatnið ásamt Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í Hamraborg í Hofi. Verkið er samið við tónlist hins vinsæla tónskálds Piotr Tchaikovsky og hefur um aldir haft geysilegt aðdráttarafl. Svanavatnið sameinar töfrandi tónlist Tchaikovsky, áhrifamikla ástarsögu og líkamstjáningu sem kallar fram það stórbrotna sem dansararnir hafa fram að færa. Menningarbrú Hofs og Hörpu gerir komu rússneska ballettsins að möguleika.

Um páskana verður mikið um dýrðir eins og venjulega hjá Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Hljómsveitin frumflytur nýjan fiðlukonsert sem John Speight samdi sérstaklega fyrir Guðnýju Guðmundsdóttur, fyrrum konsertmeistara Sinfóníuhljómsveitar Íslands, auk þess að í tilefni af 250 ára afmælis Beethovens flytur hljómsveitin eitt af hans höfuðverkum, níundu sinfóníuna. Tónleikar verða bæði í Hofi og í Langholtskirkju.

Í byrjun maí er komið að samstarfi Kvikmyndasafns Íslands, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri. Saga Borgaraættarinnar var fyrsta leikna kvikmyndin sem tekin var upp hérlendis og markar upphaf kvikmyndagerðar á Íslandi. Þórður Magnússon tónskáld var fenginn til að semja nýja tónlist við myndina sem verður frumflutt af Sinfóníuhljómsveit Norðurlands á frumsýningu nýrrar endurgerðar hennar í Hofi.

Af fingrum fram með Jóni Ólafs

Spjalltónleikaröð Jóns Ólafssonar, Af fingrum fram, verður í Hofi í vetur. Þar mun tónlistarfólk á borð við Röggu Gísla, Jónas Sig, Sigríði Thorlacíus og Valdimar mæta í sófann til Jóns, spjalla um ferilinn og taka vel valin lög. Miðasala er í fullum gangi og er forsöluafsláttur til 15. september.

Tónelska músíkmúsin, Maxímús Músíkús, sækir einnig Hof heim. Þá munu Sinfóníuhljómsveitir Norður- og Austurlands leiða saman hesta sína undir stjórn Hallfríðar Ólafsdóttur, höfundar Maxímúsar. Sögumaður er Almar Blær Sigurjónsson leikari.

Loks ber að nefna Barnamorgna í Hofi, sem verða fjölbreyttir í allan vetur, myndlistarsýningum, A! Gjörningahátíðinni og viðburðum styrkþega VERÐANDI listssjóðs.

 Allar nánari upplýsingar um viðburði og starfsárið í heild sinni er að finna á www.mak.is

 


Nýjast