Fjölbreytt dagskrá á Græna hattinum

Margt verður um að vera á Græna hattinum að vanda um helgina. Dagskráin hefst með tónleikum Rúnars Þórs í kvöld, fimmtudaginn 21. mars, en þar fer Rúnar Þór yfir 33 ára feril sinn með tónlist og sögum í bland og kynnir nýja plötu sem tekin var upp í Abbey Road. Platan verður til sölu á staðnum. Með Rúnari í för er Jón Ólafsson bassaleikari. Tónleikarnir hefjast kl. 21:00.

Föstudagskvöldið 22. mars er komið að A Star Is Born tónleikum þar sem lögin úr myndinni vinsælu verða flutt. Kvikmyndin A Star Is Born kom út á síðasta ári og er óhætt að segja að myndin hafi slegið í gegn. Hún var tilnefnd til átta Óskarsverðlauna og fjögurra Golden Globe verðlauna. Lady Gaga vann Óskarinn og Golden Globe fyrir lagið „Shallow“ ásamt því að vinna Grammy verðlaun fyrir besta lag í kvikmynd. Hljómsveitina skipa þau Svenni Þór, söngur og gítar, Stefanía Svavarsdóttir söngur, Benedikt Brynleifsson trommur, Ingi Björn Ingason bassi, Pétur Valgarð Pétursson gítar, Helgi Reynir Jónsson, píano og gítar.

Á laugardagskvöldið 23. mars stígur hljómsveitin Vök á svið á Græna hattinum. Sveitin sendi frá sér sína aðra breiðskífu, „In The Dark“, þann 1. mars 2019. Af því tilefni mun sveitin blása til veglegrar útgáfutónleika. Vök hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi frá því að þau unnu Músíktilraunir 2013. Síðan þá hefur sveitin gefið út tvær stuttskífur (EP) og breiðskífuna, „Figure“ sem var valin Raftónlistarplata ársins 2017 á Íslensku tónlistarverðlaununum. Tónleikarnir hefjast kl. 22.00.

 


Nýjast