Hún er lofandi dagskráin sem nemendur leik- og grunnskóla Akureyrar bjóða upp á Uppskeruhátíðinni sem fram fer á Ráðhústorgi, í Hofi og í göngugötunni á morgun miðvikudaginn 16. maí klukkan 10-14. Ekki má gleyma sýningum skólanna sem sjá má út um allan bæ og standa fram til 21. maí. Þeir sem leggja leið sína á Ráðhústorg á morgun munu njóta dans- og söngatriða, upplesturs, Lopabandið spilar og veitt verður viðurkenning í ljóðasamkeppninni Akureyri, brosandi bær. Í Hofi verður m.a. boðið upp á krakkajóga, Marimbatónlist, söngatriði og sýnt verður leikritið Ævintýralandið sem sýnt var á árshátíð Lundarskóla og vakti mikla athygli. Í Eymundsson verður einnig sýnt leikrit sem ber heitið Nafnlausa leikritið. Þetta og margt fleira skemmtilegt á dagskrá Uppskeruhátíðar leik- og grunnskóla Akureyrar en hátíðin er skipulögð í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrar og hafa nemendur og kennarar leik- og grunnskólanna lagt gríðarlega mikla vinnu í undirbúa dagskrána og listaverkin sem skreyta bæinn. Fólk er hvatt til að leggja leið sína í bæinn á þessum tíma og fylgjast með ungum og upprennandi bæjarbúum sýna hæfileika sína.
Listaver nemenda er að finna á hátt í tuttugu stöðum og má sem dæmi nefna að Leikskólinn Tröllaborgir sýnir á Bláu könnunni, Oddeyrarskóli í Flugstöðinni, Leikskólinn Sunnuból sýnir í Glerárkirkju og Glerárskóli sýnir í Lystigarðinum og á Icelandair Hotel, segir í fréttatilkynningu.