Akureyri komst yfir í fyrsta skiptið í leiknum á 20. mínútu í stöðunni 9:8 og höfðu tveggja marka forystu í hálfleik, 16:14.Seinni hálfleikurinn var líkt og sá fyrri í járnum. Aldrei munaði nema einu til tveimur mörkum á liðunum fram á miðjan hálfleikinn. Þá settu heimamenn í fluggírinn og náðu fimm marka forystu, 25:20, þegar níu mínútur voru eftir af leiknum og allt stefndi í öruggan sigur norðanmanna.
Valsmenn náðu hinsvegar að koma til baka og minnkuðu muninn niður í eitt mark, 26:25, þegar fimm mínútur voru til leiksloka og enn og aftur stefndi í rafmagnaða spennu í leikslok í Höllinni. Akureyri skoraði hinsvegar þrjú síðustu mörkin í leiknum og tryggðu sér stigin tvö. Lokatölur 29:25.
Jónatan Þór Magnússon fór fyrir liði Akureyrar í kvöld og skoraði 7 mörk, þar af 1 úr víti. Oddur Gretarsson kom næstur með 6 mörk, Heimir Örn Árnason skoraði 5 mörk, Árni Þór Sigtryggsson 4 mörk, Guðlaugur Arnarsson 3 mörk og aðrir minna. Hafþór Einarsson átti góðan leik fyrir Akureyri í kvöld og varði 12 skot og Hörður Flóki Ólafsson varði 8 skot, en hann átti sterka innkomu í seinni hálfleik hjá norðanmönnum.
Í liði Vals var Arnór Þór Gunnarsson markahæstur með 8 mörk, þar af 5 mörk úr víti. Ernir Hrafn Arnarsson skoraði 5 mörk, Elvar Friðriksson 4 mörk og þeir Sigfús Páll Sigfússon og Gunnar Ingi Jóhannsson komu næstir með 3 mörk hver. Hlynur Morthens varði 19 skot í marki Vals.