Í klóm internetsins - Algengi og alvarleiki ávananotkunar á neti meðal 15-16 ára ungmenna á Íslandi, er yfirskrift erindis á félagsvísindatorgi í Háskólanum á Akureyri kl. 12.00 á miðvikudag. Mikill meirihluti barna í Evrópu notar internetið daglega og hefur verið áætlað að börn á aldrinum 9-16 ára verji að meðaltali tæpum 90 mínútum á dag á internetinu, mismikið eftir aldri og eftir löndum. Íslensk börn og ungmenni eru engir eftirbátar jafnaldra sinna annarsstaðar í Evrópu hvað þetta varðar enda býður internetið upp á fjölbreyttar samskiptaleiðir, menntun og skemmtun. Samhliða aukinni notkun barna og ungmenna á internetinu hafa vaknað spurningar um áhrif og afleiðingar þessarar notkunar. Sumir fræðimenn hafa viljað ganga svo langt að tala um netfíkn hafa þannig flokkað óhóflega internetnotkun sem vandamál á borð við áfengisneyslu og vímuefnanotkun . Óhófleg internetnotkun er meðal annars talin hafa letjandi áhrif á árangur í námi, raska fjölskyldutengslum og tilfinningalífi ungmenna. Enn fremur er óhófleg notkun á neti talin tengjast þunglyndi, slökum félagstengslum og aukinni einmanakennd og þá sérlega meðal ungs fólks.
Háskólinn á Akureyri hefur tekið þátt í Evrópurannsókn á netávana sem mun þegar upp er staðið ná til um 14 þúsund ungmenna í sex Evrópulöndum auk Íslands. Í erindi sínu á félagsvísindatorgi mun íslenski rannsóknarhópurinn greina frá verkefninu, og frumniðurstöðum en einnig rannsóknaraðferðinni sem er nýlunda í rannsóknum á þessu sviði að því leyti að notast er við eigindleg gögn sem greind eru miðlægt. Í rannsóknarhópnum eru þau Kjartan Ólafsson sem er lektor við HA, Eva Halapi, Hjördís Sigursteinsdóttir og Sigrún Sif Jóelsdóttir sem allar eru sérfræðingar við RHA, rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri.