Fjalla um handboltalandsliðið innan sem utan vallar á EM

„Við verðum með viðtöl og umfjöllun eftir leiki og einnig verðum við með videoklippur sem við munum setja inn á síðuna og þannig getur fólk fylgst með strákunum þarna úti," segir Hjalti Þór Hreinsson. Hann og félagi hans, Reynir Albert Þórólfsson, halda út til Austurríkis nk. sunnudag, þar sem þeir munu fylgja eftir íslenska landsliðinu á Evrópumótið í handbolta karla, sem hefst þann 19. janúar nk.  

Þeir félagar fara á vegum samtakanna Í blíðu og stríðu, sem eru stuðningsmannasamtök fyrir landsliðið í handbolta. „Þegar samtökin voru stofnuð árið 2007 fyrir HM í Þýskalandi var ég ráðinn til þess að skrifa um leikina hér heima fyrir heimasíðuna þeirra. Ári síðar var ég sendur út til að skrifa um leikina. Eftir það fór heimasíðan í pásu en í ár var ákveðið að opna hana aftur og ég var beðinn um taka þetta að mér og fékk svo Reyni með í för," segir Hjalti.

Auk þess að fjalla ítarlega um alla leiki íslenska liðsins á mótinu, munu þeir einnig fjalla um liðið í kringum leikina og gefa þannig Íslendingum innsýn inn í það hvernig lífið verður hjá landsliðsstrákunum ytra meðan á mótinu stendur. „Við fylgjumst með mótinu og strákunum sjálfum og munum fjalla um landsliðið innan sem utan vallar."

Það er ekki hægt að sleppa Hjalta án þess að fá hann til að spá fyrir um gengi íslenska liðsins í Austurríki. „Ég er þokkalega bjartsýnn og spái því að við förum í undanúrslit og spilum svo um bronsverðlaun," segir Hjalti að lokum.

Slóðin á síðuna hjá þeim félögum er http://www.ibs.is  og verður síðan opnuð á morgun, föstudag.

Nýjast