Finna upp hjólið aftur, nema núna ferhyrnt.

Hallur Örn Guðjónsson starfar við sorphirðu
Hallur Örn Guðjónsson starfar við sorphirðu

Nú stendur til að breyta til í sorpmálum á landsvísu. Allir íbúar landsins verða skikkaðir til að fá tvær tvöfaldar tunnur við heimili sín til að flokka. Almennt sorp, lífrænt, pappír og plast. Þar sem ég hef unnið í 23 ár við sorphirðu á Akureyri og nærsveitum og geri enn hef ég nokkrar athugasemdir.

 Þegar ég byrjaði að vinna við sorphirðu á Akureyri var pokakerfið gamla enn við lýði. Það voru bara gamlar olíutunnur með höldum fyrir ruslapoka sem við tókum og hentum í ruslabílinn. Það var ekkert flokkað, engar hömlur á hversu miklu sorpi fólk gat hent, öllu var hent í tunnuna án þess að pæla í því. En svo fyrir einhverjum árum tókum við upp nýtt sorpkerfi á Akureyri. Allir íbúar fengu sorptunnu með þar til gerðu plast hólfi fyrir lífrænan úrgang til moltugerðar. Ekki tvískipta tunnu eins og þessar hroðalegu nýju tunnur sem á að innleiða, heldur bara þessar hefðbundnu svörtu sorptunnur með hólfi sem hangir inni í hlið tunnunnar. Einföld lausn. Og í staðinn fyrir að setja endurvinnslutunnu við hvert heimili þá var komið fyrir grenndarstöðvum út um allan bæ. Þetta kerfi okkar hefur virkað vel og ég get ekki betur séð en að flestir íbúar séu mjög sáttir með þetta fyrirkomulag samkvæmt þjónustukönnun Akureyrarbæjar.

 

 

Sumir nota endurvinnslutunnu sem aukaruslatunnu

Kosturinn við grenndarstöðvarnar er að endurvinnsluefnið sem kemur þaðan er 99% hreint. Af því að þeir sem virkilega ætla sér að flokka fara með efnið á grenndarstöðvarnar. En í þeim bæjarfélögum sem eru með endurvinnslutunnu við hvert heimili þá er það ekki alltaf jafn hreint. Sumir hverjir annað hvort nenna ekki að flokka eða þykjast ekki skilja einföldu leiðbeiningarnar til flokkunar og nota þar með endurvinnslutunnuna bara sem auka ruslatunnu. En þar sem engin viðurlög eru við rangri flokkun þá er lítið sem við getum gert annað en að setja límmiða á tunnurnar og enda svo með að losa þær með almennu sorpi af því að ekkert breytist.

Segjum sem svo að þetta gangi eftir. Að þið skiptið út þessu kerfi sem er að svínvirka fyrir þessar tvöföldu tunnur. Allt án efa gert í ljósi umhverfisverndar. Hvað verður um gömlu tunnurnar? Á bara að henda þeim? Á bara að henda einhverjum þúsundum tunna af því að einhverjum fannst þessar nýju tunnur svo “sniðugar”. Svona fyrst þetta snýst allt um umhverfisvernd, væri þá ekki nær að NÝTA þessar tunnur sem eru nú þegar til staðar. Setja bara endurvinnslutunnur með hólfi við hvert hús. Þá er líka hægt að nota sömu bíla enn þá í staðinn fyrir að þurfa að kaupa sérhæfðan búnað fyrir þessar nýju tunnur.

Fjórir flokkar á Dalvík, þrír á Grenivík

Dalvíkingar hafa lengi  flokkað í fjóra flokka. Þar eru sorptunnur með hólfi fyrir lífrænan úrgang og endurvinnslutunnur með hólfi fyrir plast, ál o.s.frv.. Hefðbundnar ruslatunnur sem eru bara með losanlegu hólfi ofan í fyrir flokkunina. Þessar stöðluðu tunnur er auðveldlega hægt að losa með öllum bílaflotanum hjá Terra. Á Dalvík þarf ekki að breyta nokkrum sköpuðum hlut. Við á Akureyri gætum hæglega tekið upp sama kerfi með því að bæta við einni sorptunnu með hólfi.

Grenvíkingar hafa flokkað í þrjá flokka. Þeir eru með sorptunnu með hólfi fyrir lífrænan úrgang og svo endurvinnslutunnu fyrir allt endurvinnsluefni. Það ásamt öllu öðru endurvinnsluefni sem við hirðum fer svo rakleiðis til Fróða í Hafnarfirði þar sem það er flokkað frekar.

Fróði færir flokkun og endurvinnslu á annað stig

Fróði er  ,,sjálfvirkur" flokkari sem er einn sá fullkomnasti á Norðurlöndum. Þetta er ný tækni í flokkun og endurvinnslu; vél sem notar stafræna tækni, ljósmyndaminni og fleira. Þessi nýja vél, sem við köllum Fróða, er stór fjárfesting sem færir flokkun og endurvinnslu á Íslandi á annað stig. Hægt er að flokka endurvinnsluefni mun nákvæmar og betur en áður sem er í takt við kröfur endurvinnslufyrirtækja. Nú er í fyrsta sinn á Íslandi hægt að flokka plast eftir efniseiginleikum sem getur stutt við íslenska plastendurvinnslu, og fyrstu skrefin í þá átt hafa verið tekin. Við erum að hefja mjög spennandi samstarf með öðrum íslenskum fyrirtækjum í því að  efla íslenska plastendurvinnslu og minnka þar með mengun og stíga um leið spennandi skref í áttina að hringrásarhagkerfi – þar sem við lítum á úrganginn sem verðmæti, sem við endurnýtum aftur og aftur.

Þannig að við þyrftum ekki einu sinni tveggja hólfa endurvinnslutunnu hjá Terra, þetta fer allt saman í Fróða hvort eð er.

Tunnurnar á Dalvík. Sorptunna með hólfi fyrir lífrænt og endurvinnslutunna með hólfi fyrir plast.

Tunnuskýlin

 Ætli einhver á þessari verkfræðistofu sem finnur sig knúin til að finna upp hjólið aftur hafi hugsað út í hvað íbúum finnist þegar þeir komast að því að þessar nýju tunnur komast mögulega ekki fyrir í núverandi tunnuskýli/geymslu. Hversu miklum peningum heldurðu að íbúar hafi eytt í tunnuskýli sem þarf núna að skipta út, á svo bara að henda gömlu tunnuskýlunum? Þar sem það virðist vera þema hérna. Henda þessu gamla og kaupa eitthvað nýtt og óþarft.

Ég held að fólkið sem tekur allar ákvarðanirnar þurfi að kynna sér eftirfarandi möntru endurvinnslunnar: „Reduce – Reuse – Recycle“. Þau ættu að kynna sér Reuse partinn. Því það er vel hægt að nýta allt sem er til staðar nú þegar.


Athugasemdir

Nýjast