Fimmtíu ár frá upphafi Norðurflugs á Akureyri

Sunnudaginn 1. nóvember nk. verða liðin 50 ár síðan flugvélin TF-JMH kom til Íslands og lenti á Akureyrarflugvelli eftir flug frá Bandaríkjunum um Kanada og Grænland. Síðasta áfangann, frá Syðri-Straumfirði á Grænlandi til Akureyrar, var flogið í blíðskaparveðri og tók flugferðin um 6 klukkutíma og 25 mínútur.

Flugmenn voru Tryggvi Helgason, eigandi vélarinnar og stofnandi Norðurflugs og Aðalbjörn Kristbjarnarson, flugstjóri hjá Flugfélagi Íslands. Flugvél þessi, sem var af gerðinni Piper Apache, var búin öllum tækjum til blindflugs og var fyrsta tveggja hreyfla sjúkraflugvél landsins. Nokkru eftir komu vélarinnar til landsins fór Tryggvi frá Akureyri til Ólafsfjarðar í fyrsta sjúkraflugið á þessari nýju flugvél og lenti á Ólafsfjarðarflugvelli. Sá flugvöllur hefur nú verið lagður af og er reyndar ekki lengur til. Næstu tvo áratugina fór TF-JMH í á annað þúsund sjúkraflug og var lent á allflestum flugvöllum landsins. Reyndist þessi flugvél í alla staði mjög vel, að sögn Tryggva. Hún er enn til og er í ágætu flughæfu standi.

Í fyrrasumar var þess minnst á Flugsafni Íslands á Akureyri að 44 ár voru liðin frá því að tveimur flugvélum af gerðinni Beechcraft var flogið frá Bandaríkjunum til Akureyrar, en Norðurflug hafði keypt vélarnar vestra og notaði síðan um árabil í flugrekstri sínum. Flugsafninu var við athöfnina afhent módel af flugvélum sem notaðar voru í rekstri Norðurflugs. Tryggvi komst í kynni við foringja í bandaríska flughernum, Lorren L. Perdue og hafði  hann milligöngu um að útvega vélarnar í heimalandi sínu. Bauðst hann til að fljúga vélinni og útvegaði að auki félaga sína úr hernum til að ferja hina vélina til nýrra heimkynna.  Um borð í vélunum voru 6 manns, Lorren, David sonur hans, þá 15 ára, Björn Sveinsson flugvirki og þrír félagar Lorerens úr hernum. 

Nýjast