Fimmtán mánaða fangelsi fyrir þjófnað
Karlmaður á fertugsaldri hefur verið dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi fyrir þjófnað en dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands eystra nýverið. Maðurinn var m.a. dæmdur fyrir innbrot í húsnæði á Akureyri í fyrra þar sem hann stal myndavél, tölvu, saumavél, tveimur borvélum og ýmsu smádóti. Einnig stal hann lyfjum úr neyðarvagni á slysadeild Sjúkrahússins á Akureyri nokkrum dögum síðar.
Maðurinn játaði brotin skýlaust og hefur þýfinu verið komið aftur í hendur eigenda sinna. Ákærði á langan brotaferil að baki, sem hófst árið 1993 er hann var fimmtán ára.