Fimm bíla árekstur á Glerárgötu

Litlu munaði að illa færi í fimm bíla árekstri á gatnamótum Þórunnarstrætis og Glerárgötu skömmu eftir hádegi í dag. Fjöldi fólks, börn og fullorðnir, voru í þessum bílum en samkvæmt upplýsingum á vettvangi slasaðist enginn mjög alvarlega. Þó þurfti að klippa ökumann og farþega úr einum bílnum. Þrír voru fluttir á slysadeild en meiðsli þeirra voru ekki talin alvarleg.

Dráttarbíll með tengivagn og tank á tengivagninum hafnaði aftan á fólksbíl, sem beið á rauðu ljósi neðst í Þórunnarstræti og kastaði honum yfir á umferðareyju á milli akreina á Glerárgötu. Dráttarbíllinn hélt áfram þvert yfir Glerárgötuna og skall á bíl sem var á leið norður Glerárgötu, sá bíll skall á annan bíl samsíða og skall sá bíll á enn einn bílinn sem beið á rauðu ljósi framan við verslunina 66 gráður norður við Glerárgötu. Dráttarbíllinn stöðvaðist svo rétt við verslunina. Gríðarleg hálka var þegar slysið varð. Tveir bílanna eru ónýtir.

Karl Viðar sat einn í fólksbíl sínum á rauðu ljósi neðst í Þórunnarstræti þegar dráttarbíllinn skall á honum og kastaði yfir Glerárgötu og á umferðareyju á milli akreina þar. "Mér brá að vonum í brún en ég slapp þó við meiðsli fyrir utan smá skrámu á fæti," sagði Karl í samtali við Vikudag, þar sem hann stóð við bíl sinn á vettvangi. Hann hafði skroppið í búð til að fá sér hákarl í tilefni þorrans. "Þetta var dýr hákarl," sagði Karl en bíll hans er ónýtur eftir áreksturinn.

Fleiri myndir frá vettvangi á Ljósmyndir.

Nýjast