Ég vil ganga svo langt að líkja því við að þegar börn og/eða unglingar byrja neyslu fíkniefna þá sé það vegna þess að þau valda einfaldlega ekki því frelsi sem þeim er gefið. Neytendur fíkniefna verða sífellt yngri og fleira fylgir í kjölfarið sem miður fagurt er. Eðli málsins samkvæmt eykst brotatíðni barna og unglinga og brotin gegn samfélaginu verða grófari þegar fram líða stundir.
Það þarf að taka þennan málaflokk mun fastari tökum en verið er að gera og þó að aukin löggæsla sé á dagskrá og síendurskoðað umhverfi barnanna sé í farvatninu, í skólum og öðrum stofnunum, þá þarf að mínu mati fleira að koma til.
Það er mjög mikilvægt að bregðast við um leið og börn eða ungmenni brjóta af sér í fyrsta sinn, til að minnka líkurnar á því að þau haldi áfram að feta þá braut og sökkva dýpra í neyslu og afbrot með tímanum. Því miður er það svo að þegar fólk brýtur af sér t.d. með notkun fíkniefna þá er viðkomandi sleppt eftir rannsókn málsins í bið eftir dómi. Í mínum huga er hér ákveðið úrræðaleysi. Viðkomandi einstaklinga þá sérstaklega börn og ungmenni á að dæma strax og þá i langtímameðferð. Sú meðferð á að taka mið að högum viðkomandi einstaklings og ekki endilega fara fram á stofnun heldur vera einstaklings hæfð og byrja strax. Ekki á að bíða eftir því að viðkomandi brjóti af sér aftur og aftur þar til hægt er að sakfella hann.
En þegar sakhæf börn og ungmenni eru sakfelld fyrir dómi, þá hefur það því miður verið eina úrræðið fyrir utan fangelsisvistun að skilorðsbinda dóma. Skv. lögunum er hægt að skilorðbinda dóma þannig að viðkomandi þurfi að sitja af sér dóminn í fangelsi, ef hann brýtur aftur af sér á skilorðstímanum. En það er einnig unnt að skilorðsbinda dóma þannig að viðkomanda beri skylda til að fara í meðferð og/eða að neyta ekki áfengis né fíkniefna á skilorðstímanum. Þetta er úrræði sem ég vil að verði komið í framkvæmd með öflugum hætti, en þetta hefur því miður ekki verið nýtt sem skildi enda ýmislegt sem þarf til þannig að þetta verði meira en orðin tóm.
Til þess að slíkir skilorðsbundnir dómar hafi tilætluð áhrif til að hjálpa ungum gerendum, þarf fyrst og fremst að skapa möguleika til að byggja upp sérstakar bæði skammtíma og langtíma meðferðarstofnanir, til að koma þessum ungmennum á beinu brautina. Mörg ungmenni hafa verið í mikilli og harðri neyslu s.s. sprautufíklar , þessir gerendur hafa lítið gagn af skammtímameðferð, þau fara nánast alltaf í sama farið innan skamms. Til að raunverulega hjálpa þessum hópi þarf meira til og þá þurfa þau á langtímameðferð að halda, jafnvel allt upp í 1-2 ár. Í dag eru engar stofnanir sem sérhæfa sig í meðferð þessara ungmenna þannig að raunverulega sé tekið á vandanum. Fjármagn þarf til þess að koma upp skilvirku eftirlitskerfi með skilorðsbundnum gerendum þannig að skilorðsbundnir dómar séu ekki orðin tóm,
Til að tryggja að slík úrræði yrðu nýtt sem skildi þarf að lögfesta það að ávallt skuli skilorðsbinda dóma með þessum hætti þegar börn eða ungmenni eru gerendur í málum sem varða tveggja ára fangelsi eða minna. Það fjármagn sem þarf til að koma upp umræddum stofnunum er mjög vel varið og kostar samfélagið mun minna en að hafa unga neytendur í hringiðu samfélagsins, þar sem þau halda áfram að valda sjálfum sér og öðrum skaða.
Samkeppni á milli kynslóða um lífsgæði á ekki að eiga sé stað. Sú firring sem birtist með auknu ofbeldi og aukinni fíkniefnaneyslu verður að stöðva. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra og lausnin byggist á þeirri trú minni að það besta búi í okkur sjálfum. Þetta málefni er mér mjög hjartfólgið og mun ég leggja mikla áherslu á að koma ofangreindum hugmyndum í framkvæmd, enda fátt hræðilegra en að horfa upp á efnileg börn og ungmenni sökkva í fen neyslu og afbrota.