Fermetraverð heldur áfram að hækka á Akureyri

Samkvæmt Þjóðskrá Íslands hélt fermetraverð áfram að hækka á Akureyri á síðasta ári líkt og það hefur gert samfellt frá árinu 2009. Hæsta fermetraverðið árið 2017 var í Naustahverfi sem skýrist einna helst af aldri hverfisins, en Naustahverfi er yngsta hverfið á Akureyri. Þetta kemur fram í umfjöllun Hagfræðideildar Landsbanka Íslands.

Fermetraverð á Akureyri hækkaði um 15,1% milli áranna 2016 og 2017. Frá árinu 2009 hefur fermetraverð hækkað samhliða jafnri fjölgun fasteignaviðskipta. Mest var hækkunin á Brekkunni og í Innbænum, eða 26,4%, en minnst á Oddeyri, eða 11,2%. Hæsta fermetraverðið mátti finna í Naustahverfi, eða 346 þúsund. Næst á eftir kom Giljahverfi með 320 þúsund. Lægstu fermetraverðin voru á Oddeyri, 220 þúsund og í Holta- og Hlíðahverfi, 259 þúsund. Munurinn á dýrasta og ódýrasta hverfinu hélt áfram að aukast á árinu. Munurinn nam um 126 þús. á fermetra en hann hefur aukist jafnt og þétt frá 2010 þegar hann var 72 þús.

Breyting á fermetraverði og fjöldi viðskipta á Akureyri

Hóflegri hækkanir hafa verið á fermetraverði á Akureyri í þeirri uppsveiflu sem hefur verið undanfarin ár (2015-2017) en í síðustu uppsveiflu (2004-2006). Milli áranna 2004-2006 var 57,1% hækkun á fermetraverði en milli áranna 2015-2017 var hækkunin 26,5%. Fermetraverð á Akureyri hefur haldið áfram að hækka þrátt fyrir rólegri tíma á höfuðborgarsvæðinu.

Mikil uppbygging nýrra íbúða er nú í gangi bæði í Naustahverfi sem og í Innbænum. Þegar þær fasteignir fara á sölu er því von á að meðalfermetraverð á Akureyri hækki enn frekar. Nýjar íbúðir hafa almennt hærra fermetraverð, auk þess sem staðsetning margra nýju íbúðanna er eftirsóknarverð.

Nýjast