Síðasta ár var viðburðarríkt hjá Hollvinum Húna II en félagið sér um rekstur eikarbátsins Húna II, sem nú hefur fengið einkennisstafina EA 740. Aðalfundur félagsins var haldinn á dögunum og þar kom m.a. fram að fjármögnun og leiðir til tekjuöflunar eru eitt aðalumræðuefnið á stjórnarfundum, auk þess sem talsverður tími fer í málið á milli funda. Í skýrslu stjórnar fyrir síðasta kemur þó fram að reksturinn hafi gengið vel. Einnig kemur fram að breytingar á afgreiðslu styrkbeiðna til fjárlaganefndar hafa verulega óvissu í för með sér fyrir Húna II: Erindinu hafi verið vísað heim í hérað. Ekki hafi náðst samningar milli menntamálaráðuneytisins og Eyþings um afgreiðslu þessara styrkja en vitað sé að framlög ríkisins eru verulega skert, eða um meira en 50%.
Báturinn gegnir lykilhlutverki í að halda tengslum milli hollvinanna en þar má helst nefna kaffifundi en þeir hófust á sl. ári um miðjan október en voru að sjálfsögðu líka um vorið. Svipaður fjöldi mætti í hvert skipti eða milli 30 og 50 manns. Þá voru tvær skötuveislur í desember sl. fyrir hollvini og velunnara, segir í skýrslu stjórnar.
Húni fór í 66 ferðir í fyrra en ferðirnar voru 79 árið 2010. Farþegar voru 2028 og fækkaði einnig frá árinu áður. Á það er þó bent að júlí hafi að mestu dottið út vegna siglingar til Færeyja, sem var stóra siglingin á síðasta ári. Eftir góðan tíma í Færeyjum var haldið til Húsavíkur, þar sem Húnamenn tóku þátt í dagskránni Sail Husavik 2011.
Siglingar frá Torfunesbryggju voru með svipuðum hætti og fyrri ár. Sú nýjung var þó í fyrra, að þrjár siglingar voru tileinkaðar Haftónaverkefninu en hugmyndin að baki þeim siglingum var að tengja saman söng, sögur og góðgæti úr Eyjafirði. Verkefnið var unnið í samstarfi við Snorra Guðvarðarson og hans vini og með styrk frá Eyþingi. Markmið verkefnisins var að þróa menningartengda ferðaþjónustu um borð í Húna II með því að fá til samstarfs listafólk og tengja saman ýmsa þætti strandmenningar svo sem tónlist, ljóð/vísur og mat úr héraði.
Áhöfnin mikilvæg
Sögusiglingar voru með svipuðum hætti og áður. Frekar dræm þátttaka var í margar ferðir og reynt var að auka fjöldann með því að lækka verð úr kr. 3.000 í kr. 1.000 og heldur glæddust þessar ferðir í ágúst. Hollvinir Húna hafa tekið sjómannadaginn yfir en spurning er um framhaldið. Farið var sögusiglingu norður frá Grenivík, Húni II tók þátt í Akureyrarvöku og verkefninu frá Öngli í maga, fyrir nemendur í 6. bekk. Þá var siglt í þrjá daga með Rússa á stjóstöng og farið með gesti frá Discoery, í siglingu, hvalaskoðun og sjóstöng.
Mikilvægur þáttur í starfi Húna II eru þessar siglingar og þar hefur áhöfnin lykilhlutverki að gegna. Við erum þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa aðgang að úrvals mannskap í brú, vél og á dekki. Nokkrir sóttu grunnnámskeið og námskeið um Líf- og léttabáta og eldvarnir og fjarskipti, segir ennfremur í skýrslu stjórnar.