Dr. Edward H. Huijbens skrifar
Það er mikið fagnaðarefni að landsmenn horfi af alvöru til uppbyggingar í ferðaþjónustu. Þetta á sérstaklega við eftir hrun og virðist sem ferðaþjónustan hafi þá, líkt og áður þegar að hefur kreppt, komist inn í vitund landsmanna sem raunverulegur valkostur atvinnuuppbyggingar. Er það vel og fá þeir sem staðið hafa í áravís fyrir uppbyggingu í greininni nú viðurkenningu sinna starfa. Nú horfa níu sveitarfélög á Norðurlandi í sameiningu til þess að koma við fjárfestingu í greininni og hvernig aðstoða má Huang Nubo við að koma sínum hugmyndum í framkvæmd á Grímsstöðum á Fjöllum. Hefur atvinnuþróunarfélögum Eyfirðinga og Þingeyinga verið falið að vinna málið og hér að neðan vil ég velta vöngum þar um.
Fyrst að nokkrum staðreyndum og forsendum. Hugmyndir Nubo snúa að því að byggja hótel, svo eðlilegt er að skoða hótelrekstur eins og hann er á svæðinu. Það svæði mundi vera Norðurland eystra og á Hagstofan prýðisyfirlit yfir þróun eftirspurnar og framboðs á hótelum og gistiheimilum á því svæði frá 1998, byggt á gistiskýrslum rúmlega 93% þeirra sem þá þjónustu veita. Svæðið hefur að meðaltali átt 12% allra gistinátta útlendinga hér á landi á tímabilinu 1998-2010. Hefur þeim fjölgað um 4,5% á tímabilinu. Frá 2000-2010 hefur rúmum í hótel og gistiheimilum fjölgað um 3% milli ára og árið 2010 voru 2.827 og miðast við hámarksframboð að sumri. Nýting þessara rúma á ársgrunni er um 33% og hefur ekkert breyst á tímabilinu 1998-2010. Í júlí er nýtingin góð 70% að meðaltali (skánað um 1% milli ára), 40% í júní (batnað um 5% milli ára) og 60% í ágúst (ekkert breyst milli ára). Aðrir mánuðir eru frá 5% og upp í 25% nýtingu minnst í janúar og desember en svo smá skánar hún að háönn sumarsins.
Að þessu gefnu má ætla að Nubo hafi ekki í hyggju að fara bítast um þennan smástíga vöxt við þá sem fyrir eru og hafa lagað sig að honum og mikilli árstíðarsveiflu, þá annaðhvort með smástígri vöruþróun líkt og sjá má við Mývatn, eða gegnum einingaskipta stærðarhagkvæmni. Frekar þykir mér líklegt að hann hafi í hyggju að koma með nýjan markhóp til landsins, þá líklega auðuga Kínverja. Þá er spurning hvernig okkar tengingum þangað er háttað. Frankfurt og Helsinki eru tveir þekktir pólar sem tengja Kína við Evrópu og eru tengdir leiðarkerfi Icelandair sem gætu verið flugleið. Frá Keflavík er svo mögulegt tengiflug norður á Akureyri að sumri, annars er áætlunarflug innanlands frá Reykjavík til Egilsstaða eða Akureyrar leiðin, og svo bíll á Grímstaði. Allt í allt og ef vel sækist er um sólarhringur í beinu ferðalagi að komast frá Peking að Grímstöðum á Fjöllum, gefum okkur tvo daga til að vera raunsæ. Það gerir væntanlega kröfu um fimm daga dvöl hið minnsta svo þetta sé á sig leggjandi. Gefum okkur að hótelið sé með 100 herbergjum og þá um 200 rúmum, sem er í takt við stærstu hótel sem rekin eru á ársgrundvelli á svæðinu. Miðað við 50% nýtingu allt árið (fyrst að nýr markhópur er komin) og vikudvöl hvers ferðalangs gætu hér verið um 5.200 gestir á hans vegum á ári. Hin leiðin sem nefnd hefur verið er að Nubo stofni flugfélag og fljúgi beint inn sínum farþegum. Ferðaþjónustuaðilar á Norðurlandi vilja flestir beint millilandaflug á svæðið almennt þar sem þeir telja ferðalagið sem áðan var lýst ekki sérlega söluvænlegt miðað við stuttar ferðir. Höldum okkur við vikudvölina og venjulega 200 sæta þotu, vikuleg ferð Akureyri/Húsavík/Egilsstaðir Peking með 100 manns, gengur varla enda það léleg sætanýting í flugvél, líklegra væri að fylla vélina og miða við vikudvöl og fylla þannig hótelið allt árið. Það mundi vera mikil nýlunda í ferðaþjónustu hér á landi, sérstaklega á landsbyggð, en byggir á umtalsverðri beinni erlendri fjárfestingu (flugfélag/flugvél (kaup eða leiga) og hótel).
Þá kemur að því að þjónusta þarf 200 manns sem þarna munu búa allt árið og gera má ráð fyrir 100 manns hið minnsta í starfslið. Ef um auðuga Kínverja er að ræða er þó líklegra að það sé maður á mann. Þarna er því komið þorp með 400 íbúa hið minnsta, og til samanburðar má nefna að við Mývatn eru skráðir íbúar þar um bil. Hvaða væntingar Kínverjar hafa um þjónustu vitum við lítið um og ekki hef ég séð miklar rannsóknir hérlendis. Íslensk ferðaþjónusta sinnti um 9.000 Kínverjum síðasta ár (1,6% af heildarfjölda gesta) og gera má ráð fyrir að þeir hafi dreifst nokkuð jafnt innan um aðra. Með hóteli sem ætlað er Kínverjum sérstaklega þarf að veita þeim það sem þeir þarfnast meðan þeir eru að heiman, ekki bara grunnþjónustu til að tryggja að þeir lifi af, heldur ólík stig gæða og verðs allt eftir því hvernig þjónustu og upplifun menn telja að þeir séu að sækjast eftir. Þjónustan er beintengd væntingum fólks ekki síður en þörfum, bæði þeirra sem veita hana og þiggja og þannig tvinnast upplifun af þjónustu saman við þjónustuna. Þessi sk. ferðavara, sem Nubo vill hanna byggir á fyrirmyndum af sambærilegum rekstri í Kína. Ég mundi ætla að það tæki nokkur ár að byggja mannauð á svæðinu sem sinnt gæti þessari ferðavöru, að því gefnu að hún liggi alveg fyrir og sé í takt við væntingar ferðaþjónustu og íbúa á svæðinu. Ég mundi því ætla að vinnuafl væri að mestu innflutt fyrst um sinn og einungis um að ræða afleidd störf fyrir Íslendinga vegna þorpsins sem þarna verður risið.
Þá er kannski komið að loka vangaveltu til sveitarfélaga á svæðinu. Markmiðið er atvinnuuppbygging, til þess að hún verði með þeim hætti að hún gagnist svæðinu þarf hún að vera í góðum tengslum við það. Sú gríðarmikla fjárfesting sem að ofan er lýst, mun alfarið koma utan frá. Til að geta metið hver tengslin verða vil ég því gjarna fá kynnta ferðavöruna og þær samgöngutengingar sem fyrirhugaðar eru til að þetta verði, sem og þá hvernig þetta þorp á að líta út við Grímsstaði á Fjöllum. Uppbygging ferðaþjónustu snýst ekki aðeins um að reisa hótel.
Höfundur er forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála.