Ferðaþjónusta allt árið

Halldóra K. Hauksdóttir
Halldóra K. Hauksdóttir

Akureyri getur orðið miðstöð ferðaþjónustu á landsbyggðinni ef vilji og áræði eru fyrir hendi. Ferðaþjónusta er í dag sú atvinnugrein sem aflar þjóðfélaginu mestra gjaldeyristekna og hefur þar með stungið sjávarútveg og stóriðju af.

Kláfferja

Á aðalfundi KEA 30. apríl sl. var lögð fram tillaga um byggingu kláfferju upp á Hlíðarfjall. Tillagan var þess eðlis að í raun var hvorki hægt að samþykkja hana né fella vegna orðalags. Sveinn Jónsson í Kálfsskinni hefur verið ötull baráttumaður fyrir þessari framkvæmd í nærri tvo áratugi við fremur dræmar undirtektir fjárfesta, sem gerðu á árunum fyrir hrun óraunhæfar arðsemiskröfur eins og komið hefur á daginn. Tillögunni var vísað til stjórnar KEA en margir óttast að þar muni hún sofna.

Hagkvæmniskönnun

Ég tel því að Akureyrarstofa eigi að beita sér fyrir því í samvinnu við Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og KEA, að gerð verði kostnaðar- og hagkvæmniskönnun á uppbyggingu og rekstri kláfferju eða leiti annarra leiða t.d. með lyftu til þess að komast upp á Hlíðarfjall og byggja þar þjónustuhús. Margt bendir til þess að bygging kláfferju upp á Hlíðarfjall gæti verið álitlegur fjárfestingarkostur fyrir KEA og stutt þau félagslegu markmið sem félaginu er ætlað að sinna sem byggðafestufélag.

Hlíðarfjall allt árið

Akureyri hefur alla burði til að vera útivistarparadís jafnt á vetri sem á sumri. Hlíðarfjall er eitt besta skíðasvæði landsins en það þarf að halda áfram uppbyggingu og viðhaldi á skíðasvæðinu ef það á að vera áfram í fremstu röð. Markmiðið með byggingu kláfs væri ekki aðeins að gera Hlíðarfjall að einu mest spennandi skíðasvæði í norðanverðri Evrópu, heldur að virkja Hlíðarfjall allt árið um kring. Með því að komast upp á topp Hlíðarfjalls á auðveldari hátt en með því að ganga, opnast möguleiki á skíðaiðkun á Vindheimajökli yfir sumarið.

Nýsköpun á sviði ferðamála

Rétt er að nefna lofsvert framtak ferðaskrifstofunnar Saga travel með nýsköpun á sviði ferðamála hér á svæðinu, þar sem boðið er upp á annars vegar norðurljósaferðir og hins vegar miðnætursólarferðir. Sömuleiðis er rétt að nefna þá aðila sem bjóða upp á siglingar um Eyjafjörð m.a. í tengslum við hvalaskoðun. Á þennan hátt nýtum við okkar svæðisbundnu auðlindir.

Fjölbreytt afþreying

Á sumrin koma ríflega 70.000 ferðamenn til Akureyrar með skemmtiferðaskipum. Þeim þurfa að standa til boða fjölbreyttir afþreyingarmöguleikar á svæðinu. Þar myndi kláfur upp á topp Hlíðarfjalls verða eftirsóttur því flestir ferðamenn vilja vafalítið njóta útsýnis. Samhliða því gætu þeir varið meiri tíma á Akureyri til kaupa á ýmiss konar vörum og þjónustu sem er ávinningur fyri atvinnulíf bæjarins. Því þarf að taka óbein áhrif með í þeirri hagkvæmniskönnun sem yrði unnin.

Gerum Akureyri að eftirsóttum áfangastað en ekki viðkomustað, gerum góðan bæ betri.

 Haldóra K. Hauksdóttir

Höfundur skipar fimmta sæti á lista Framsóknarflokksins á Akureyri til sveitastjórnarkosninga.

Nýjast