Félögum FVSA fjölgaði um rúmlega 100

Fullgildum félagsmönnum í Félagi verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni, FVSA, fjölgaði á síðasta ári um 104 og voru 1.644 um síðustu áramót, 586 karlar og 1.058 konur, þar af eru 254 gjaldfrjálsir. Afkoma félagsins var rúmlega 6,4 milljónum krónum betri en árið á undan og eiginfjárstaða félagsins er sterk. Tekjur félagsins af félagsgjöldum hækkuðu um 15,7% milli ára, heildartekjur allra sjóða félagsins voru samtals um 87,8 milljónir króna. Þetta kom fram á aðalfundi félagsins nýlega. Mikið hefur verið fjallað og fundað um samvinnu og sameiningu stéttarfélaga á starfsárinu, jafnt á landsvísu, sem innan svæðis. Úlfhildur Rögnvaldsdóttir formaður FVSA sagði að mikil vinna hefði verið lögð í bæði þessi verkefni og að útkoman hefði verið sú að ekki var talinn grundvöllur fyrir sameiningu allra verslunarmannafélaga í eitt félag á landsvísu og málið því sett í biðstöðu af hendi landssambandsins. Hvað sameiningu stéttarfélaganna við Eyjafjörð varðar var hugmyndin sú að stofnað yrði eitt deildaskipt félag.

„Félögin sem tóku þátt í þessu ferli voru auk okkar Eining-Iðja, Sjómannafélag Eyjafjarðar, Félag málmiðnaðarmanna, Félag byggingamanna, Rafvirkjafélag Norðlendinga, Sjómannafélag Ólafsfjarðar og Vaka á Siglufirði. Innan okkar stjórnar var raunar meiri vilji til að skoða þessa leið heldur en að sameinast á landsvísu, en ákveðið var af félögunum hér við fjörðinn að fresta frekari vinnu við málið," sagði Úlfhildur.

Á aðalfundinum var Páll H. Jónsson, fyrrum formaður félagsins, gerður að heiðursfélaga. Hann er sá fjórði sem félagið heiðrar með þessum hætti. Aðrir heiðursfélagar eru þau Ása Helgadóttir, fyrrverandi starfsmaður félagsins, Kolbeinn Helgason, fyrrum formaður, og Jóna Steinbergsdóttir, fyrrum formaður.

Nýjast