24. ágúst, 2007 - 12:16
Fréttir
Félagar í Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri, munu taka þátt í leitinni að þýsku fjallagöngumönnunum á Svínafellsjökli. Von er á Fokker flugvél Landhelgisgæslunnar til Akureyrar nú í hádeginu og mun hún fljúga með 7 björgunarsveitarmenn frá Súlum til Hornafjarðar. Að sögn Skúla Árnasonar, formanns Súlna, er ráðgert að björgunarsveitarmennirnir verði fluttir með þyrlu upp á jökulinn, þar setji þeir upp tjaldbúðir og haldi til leitar út frá þeim. Hann sagði að aðstæður til leitar væru mjög erfiðar, jökullinn væri mjög sprunginn og víða snjór yfir. Skúli sagði að fjöldi leitarmanna væri þegar á svæðinu en að ekki hefðu borist nýjar upplýsingar af gangi mála. Tvær þyrlur eru notaðar til að flytja leitarmenn á svæðið.