„Það er bara bjart framundan í fasteignasölu á Akureyri enda er okkur að fjölga og kaupmáttur að aukast mikið þannig að ég spái mjög góðri sölu á fasteignum á Akureyri áfram,“ segir Arnar Birgisson hjá fasteignasölunni Eignaveri.
„Vextir eru lágir, næg atvinna og nokkur uppgangur á svæðinu þannig að ég sé ekki annað en fasteignamarkaðurinn verði áfram út árið í góðu jafnvægi,“ segir Björn Guðmundsson hjá Fasteignasölunni Byggð.
Í nýliðnum júní mánuði var alls 104 kaupsamningum um fasteignir þinglýst á Norðurlandi, þar af voru 72 vegna eigna á Akureyri.
Heildarveltan var 2.450 milljónir króna og meðalupphæð á samning 34 milljónir króna.
Vel hefur gengið að selja nýjar íbúðir í Hagahverfi, þá eru nýjar íbúðir sem boðnar voru til sölu við Undirhlíð að klárast, en að mestu er um að ræða eignir undir 100 fermetrum og segir hann ævinlega góða eftirspurn ef slíkum íbúðum. Jafnframt hafi dýrari eignir selst, einbýlis-, rað-, og parhús í nokkrum mæli þannig að markaðurinn sé í góðu jafnvægi.