Fagna endurbótum á Eiðsvelli

Eiðsvöllur.
Eiðsvöllur.

Hverfisnefnd Oddeyrar á Akureyri fagnar endurbótum á Eiðsvelli. Akureyrarbær hefur í nafni Umhverfisátaks og í samvinnu við hverfisnefndina sinnt viðhaldi á staðnum sem nokkuð hefur látið á sjá síðustu ár. Göngustígurinn hefur verið endurnýjaður, útbúið hefur verið opnanlegt fag á girðingunni milli róluvallarins og opna svæðisins svo gestir geti fylgst með börnum sínum frá opna svæðinu. 

Sett var upp bráðabirgðagirðing við Glerárgötu þar sem völlurinn er nokkuð opinn fyrir þessarri miklu umferðargötu.

„Fallegt söguskilti hefur verið sett upp á Eiðsvelli með myndum og ágripi af upphafi byggingar á Oddeyri.  Af þessu tilefni vill Hverfisnefnd Oddeyrar bjóða til morgunkaffis á Eiðsvelli laugardaginn 29. Ágúst milli kl. 11 og 13. Þeir sem hafa áhuga á að vera með skottsölu er velkomið að leggja bílum sínum Eiðsvallargötumegin við Eiðsvöll.  Við bjóðum gamla eyrarpúka sérstaklega velkomna og við vitum að þeir eiga nóg af skemmtilegum sögum til að segja okkur,“ segir í tilkynningu frá hverfisnefnd Oddeyrar.  

Nýjast