Fagna 60 ára afmæli flugvallarins

Akureyrarflugvöllur. Mynd/Hörður Geirsson
Akureyrarflugvöllur. Mynd/Hörður Geirsson

Isavia, Flugsafn Íslands og Örninn – hollvinafélag Flugsafnsins ásamt fyrirtækjum á Akureyrarflugvelli efna til hátíðar í dag, laugardag, í tilefni af 60 ára afmæli flugvallarins. Flugsamgöngur með landflugvélum til Akureyrar hófust á styrjaldarárunum síðari eftir að breski herinn lauk flugvallargerð á Melgerðismelum í Eyjafirði. Flugvöllurinn var endurbættur af Bandaríkjaher og afhentur Íslendingum þegar styrjöldinni lauk.

Flugmálastjórn Íslands stóð fyrir gerð nýs flugvallar á landfyllingu við ósa Eyjafjarðarár sem tekinn var í notkun 5. desember 1954. Nýtt flugstöðvarhús var opnað árið 1961 og flugbrautin lögð bundnu slitlagi árið 1967. Árið 2009 var flugbrautin endurbætt og lengd í 2.400 metra. Flugstöðin hefur verið stækkuð tvisvar og voru verulegar endurbætur gerðar á eldri hluta hennar árið 2000. Stærð farþegarýmis er 550 fermetrar sem má skipta í þrjá sali þegar millilandaflug er afgreitt.

Afmælishátíðin hefst með móttöku í Flugsafni Íslands kl. 13:30 og að henni lokinni opna Isavia, Flugsafn Íslands, Flugfélag Íslands, Norlandair, Mýflug, Arctic Maintenance, Flugskóli Akureyrar og Suðurflug dyrnar fyrir almenningi og kynna þá fjölbreyttu starfsemi sem stunduð er á flugvellinum.

Kaffi og aðrar veitingar verða í boði og blöðrur fyrir börnin og eru allir boðnir velkomnir!

Nýjast